• Morgunfundur um loftslagsmál pallborð

Loftslagsmál - glærur og upptaka

Mikilvægt innlegg í umræðuna.

31. maí 2017

Fyrr í dag var morgunfundur Verkfræðingafélags Íslands um loftslagsmál. Margt áhugavert kom fram sem varðar stöðu Íslands, skuldbindingar okkar Íslendinga og það sem er í húfi.

Upptaka og glærur eru hér fyrir neðan. Þessar upplýsingar koma örugglega að gagni í umræðunni næstu mánuði og má minna á aðgerðaáætlun ríkisstjórnar í loftslagsmálum sem á að vera tilbúin um næstu áramót.

Upptaka frá fundinum.

Að loknum fyrirlestrum voru pallborðsumræður en þar tóku þátt, auk fyrirlesara, Ágústa S. Loftsdóttir verkefnisstjóri eldsneytismála og vistvænnar orku hjá Orkustofnun og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.

Fundarstjóri var Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Stika.

Greinargóðar upplýsingar

Sem fyrr segir komu fram á fundinum mjög greinargóðar upplýsingar þar sem staða og horfur í þessu mikilvæga máli.

Gylfi Árnason flutti gott yfirlit um stöðu mála bæði á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi. Til dæmis er áhugaverð glæra þar sem orkueiningar eru samræmdar og birt yfirlit yfir orkunotkun einstakra þjóða. Þar tróna Íslendingar efst. 

Vanda Úlfrún Liv Hellsing skýrði vel skuldbindingar Íslands og gerði grein fyrir hvaðan losunin kemur. Hún fjallaði um svokallað losunarbókhald sem er mjög ítarlegt og gerðar á því reglulegar úttektir þannig að það sé í samræmi við reglur og það sem önnur ríki eru að gera.

Rétt er að vekja sérstaka athygli á glæru yfir losun á Íslandi 1990-2015. Athugið að alþjóðaflug og -siglingar heyra ekki undir Parísarsamkomulagið. 

Halldór Björnsson birti meðal annars áhugaverðar upplýsingar um hitafar síðastliðin 220 ár og hvernig skriðjöklar hopuðu hér á landi á tímabilinu1930-2010. Þá má einnig nefna yfirlit yfir hlýnun á árabilinu 1980-2010 þar sem sést greinilega að hlýnun er mest vestantil á landinu. 

Halldór fór einnig yfir hnattrænt samhengi loftslagsbreytinganna sem eru fordæmalausar og af mannavöldum.

Sérlega áhugaverð er glæran sem sýnir dæmi um álag vegna breytinga í náttúrufari. - Ölduálag eykst, einnig úrkoma, ofanflóðahætta vegna sífrerabráðnunar, kjarr- og skógareldar og sjávarflóð vegna hækkandi sjávarstöðu. Strandflóð verða óumflýjanleg og huga þarf að skipulagi byggðar við strönd. Náttúruvá tengd loftslagsbreytingum verður staðreynd og þarf að setja fram áhættustjórnun og skýran lagaramma.

Í pallborðsumræðum var meðal annars lögð áhersla á að atvinnulífið og fagfélög eins og Verkfræðingafélagið verði virkir þátttakendur í umræðunni um loftslagsmál og í ákvörðunum um til hvaða ráða eigi að grípa. 

Hörður Arnarson sagði mikilvægt að hafa í huga að loftslagsmálin eru hnattrænt viðfangsefni. Hann nefndi sem dæmi að hitaveituverkefni Íslendinga í Kína minnka losun meira í ár en öll losun Íslendinga, stóriðja meðtalin.

 Gylfi Árnason minnti á að við Íslendingar eigum kannski ekki svo marga möguleika til að minnka losun á stórum skala. Hér eru engin kolaorkuver sem hægt er að loka. Stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvernig við getum minnkað losun í sjávarútvegi og samgöngum á landi.