Lýðheilsa og lífsgæði eiga að vera í forgangi
Grein eftir Svönu Helen Björnsdóttur formann VFÍ, sem birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 2022.
Hönnun bygginga og skipulags hefur mikil áhrif á lýðheilsu og lífsgæði fólks. Þess vegna er mikilvægt að vanda til verka á öllum stigum, ekki síst í eftirliti með gæðum. Á nýlegu málþingi Verkfræðingafélags Íslands og áhugafólks um áhrif hönnunar og skipulags á lýðheilsu og lífsgæði kom fram að ýmislegt má betur fara hér á landi. Standa verður vörð um metnaðarfull markmið, sem er að finna til dæmis í aðalskipulagi, og taka tillit til sjónarmiða sérfræðinga á sviði hljóðvistar og lýsingar við hönnun nýbygginga og endurgerð eldri bygginga. Umræða um þessi málefni er afar mikilvæg, ekki síst þegar við blasir húsnæðisekla og miklar breytingar eru að verða á skipulagi þéttbýlis.
Byggingarrannsóknir eiga undir högg að sækja eftir að Nýsköpunarmiðstöð Íslands var lögð niður. Alvarlegir gallar eru of algengir í nýbyggingum hér á landi. Ástæður eru meðal annars þær að ekki er tekið tillit til séríslenskra aðstæðna. Alltof algengt er að notuð séu byggingarefni sem ekki henta veðurskilyrðum hér á landi eða þau notuð á rangan hátt. Notaðar eru lausnir sem verða gróðrarstía fyrir myglu, múrklæðningar endast ekki og notaðar eru afleitar byggingaraðferðir við timburhús . Oftast er orsaka að leita í áherslum verkkaupa á lægsta mögulega kostnað og sem stystan framkvæmdatíma. Allt þetta ógnar lýðheilsu og veldur sóun á verðmætum. Jafnvel í dýrustu byggingum landsins eru dæmi um að kastað er til höndum við frágang og uppsetningu húskerfa, til dæmis hita- og loftræsikerfa. Dæmi eru um að verkfræðilegri hönnun sé ekki fylgt til enda, fúskað sé við uppsetningu kerfa og eftirlit aðeins til málamynda. Þannig eru dæmi um gríðarlegt tjón fyrir íbúa og málaferli við byggingaraðila.
Gallar í byggingum hér á landi hafa verið til umræðu um langt árabil og því miður hefur fúskið víða fengið að viðgangast. Þetta þarf að breytast og við getum ekki lengur leyft okkur aðgerðaleysi. Starfsheitin verkfræðingur og tæknifræðingur eru lögvernduð starfsheiti, útgefin af ráðherra eftir umsögn menntamálanefndar Verkfræðingafélagsins. Starfsheitin eru gæðastimpill á fagþekkingu. Mikilvægt er að þeir sem koma að hönnun skipulags og bygginga taki ákvarðanir út frá faglegri þekkingu sérfræðinga. Fagmennska þarf að ríkja og virkt eftirlit þarf að vera á öllum stigum. Gæðaeftirlit á byggingarstigi þarf að efla. Það má ekki vera málamyndaúttekt, byggð á óljósu og huglægu mati um gæði. Vegna hnattstöðu og sérstakra veðuraðstæðna verður einnig að styrkja á ný byggingarrannsóknir hér á landi.
Því miður er það svo að of lítið framboð af íbúðarhúsnæði stuðlar að fúski og gerir kaupendur húsnæðis umburðarlyndari gagnvart ófullnægjandi gæðum og jafnvel göllum. Í rauninni þarf hugarfarsbreytingu og það verður að efla vilja til að vanda til verka og hafa ávallt lýðheilsu og lífsgæði í forgangi. Samhliða þarf að auka fræðslu til almennings og hvetja til málefnalegrar og opinnar umræðu. Í því erum við eftirbátar nágrannaþjóðanna.
Betur má ef duga skal!
Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.
- Næsta færsla
- Fyrri færsla