Mikilvægi tæknimenntunar
Sköpunarkraftur sem mótar samfélagið.
Kjaraviðræður eru í fullum gangi. Rétt er að rifja upp grein sem formaður Verkfræðingafélagsins, Svana Helen Björnsdóttir skrifaði í Morgunblaðið í lok nóvember 2023. Þar minnir hún á mikilvægi þess að virða menntun til launa. "Þá gerast þær raddir háværari að ekki sé nóg að líta á menntunarstig sem slíkt heldur verði að taka tillit til eftirspurnar á vinnumarkaði og þarfa samfélagsins."
Verkfræðingafélag Íslands er stærsta félag tæknimenntaðra á Íslandi með um 6000 félaga. Á hverju ári stendur félagið fyrir Degi verkfræðinnar, stórri opinni rástefnu þar sem kynnt eru fjölbreytt viðfangsefni verkfræðinga og tæknifræðinga. Um leið er vakin athygli á mikilvægi tæknimenntunar. Dagur verkfræðinnar var haldinn 17. nóvember sl. og gefur tilefni til að vakin sé athygli á málum er varða félagsmenn Verkfræðingafélagsins og í reynd samfélagið allt.
Tími krónutöluhækkana er liðinn
Hér er nú minnstur munur í Evrópu á ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra og ófaglærðra.
Flest viðfangsefni nútímans eru þannig að það er ekki ein einföld leið til að leysa þau og sjaldan verða allir sáttir. Félagsmenn VFÍ hafa áhyggjur af kjörum sínum og komandi kjarasamningum. Að enn á ný verði háskólamenntaðir látnir sitja eftir. Þá gerast þær raddir háværari að ekki sé nóg að líta á menntunarstig sem slíkt heldur verði að taka tillit til eftirspurnar á vinnumarkaði og þarfa samfélagsins.
Í síðustu kjarasamningum var lögð áhersla á hækkun lægstu launa, með það að markmiði að jafna kjör fólks. Að kröfu verkalýðsforystunnar, hefur verið gripið til krónutöluhækkana í stað prósentuhækkana. Tímabært er að staldra við og spyrja hverju þetta hafi skilað? Fyrir liggur skýrsla sem Verkfræðingafélagið fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að semja og niðurstöðurnar eru óneitanlega sláandi. Skýrslan sýnir það svart á hvítu að verkfræðingar, ekki síður en aðrar háskólastéttir, hafa dregist verulega aftur úr í launum. Reyndar svo mikið að hér er nú minnstur munur í Evrópu á ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra og ófaglærðra.
Slík staða hefur alvarlegar afleiðingar. Hún dregur úr vilja fólks til að mennta sig og samfélagið í heild líður fyrir það. Það er mikill skortur á verkfræðingum og tæknifræðingum á flestum sviðum, hér á landi sem annars staðar. Þessi launastefna á íslenskum vinnumarkaði stangast algjörlega á við hið forna lögmál framboðs og eftirspurnar. Það er því mat Verkfræðingafélags Íslands að nú sé tímabært og áríðandi að snúa af braut krónutöluhækkana. Meta verði menntun til launa ef ekki á illa að fara.
Efla þarf áhuga á raungreinum, vísindum og tækni
Til að dragast ekki aftur úr þarf íslenskt samfélag að vera á tánum og þar skiptir höfuðmáli að vekja forvitni grunnskólanema á raungreinum, vísindum og tækni. Þetta er okkur hjá Verkfræðingafélaginu vel ljóst og því er félagið einn af fjárhagslegum bakhjörlum Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Einnig hefur félagið styrkt önnur verkefni, smærri í sniðum, sem miða einmitt að því að vekja áhuga og hvetja til dáða. Með því kveikjum við neistann, ýtum undir forvitnina og framsýnina. Það þarf líka að styðja betur við raungreinakennara í grunnskólum landsins. Verkfræðingafélagið hefur nú til skoðunar hvernig það geti stutt við kennaranema og starfandi kennara á sviði raungreina.
Við getum ýmislegt lært af Norðurlandaþjóðunum í þessu efni. Við gerð fjárlaga næsta árs ákvað sænska ríkisstjórnin að bregðast við skorti á verkfræðingum með því að stórauka fjárframlög til verkfræðináms og ráðgerir jafnframt að setja á laggirnar aðgerðaáætlun í raungreinum, sem gjarnan eru nefndar STEM-greinar, fyrir allt skólakerfið – STEM stendur fyrir Science, Technology, Engineering, and Mathematics. Sömu sögu er að segja frá Finnlandi. Á síðasta ári var sett í gang umfangsmikið átak til að efla STEM-greinar þar í landi. Markmiðið er að tryggja að í samfélaginu sé hæfni og skilningur á sviði raunvísinda og tækni og stuðla þannig að velferð og vexti til framtíðar á sjálfbæran hátt.
Á árinu 2021 voru 68% nema við Háskóla Íslands konur. Þær voru heldur færri í Háskólanum í Reykjavík, eða 43%. Stundum er talað um nám í verkfræði og tæknifræði sem síðasta vígi karlanna innan háskólans. Þetta hefur sem betur fer breyst og konum í þessum greinum hefur fjölgað jafnt og þétt. Vitaskuld fögnum við auknum hlut kvenna, en á sama tíma verðum við að huga að stöðu drengja í skólakerfinu. Rannsóknir sýna að brottfall drengja úr námi borið saman við aðrar þjóðir Evrópu er svo hátt að ekki er við unandi. Það kemur eflaust mörgum á óvart að árið 2019 hafði þriðjungur Íslendinga á aldrinum 20-24 ára aðeins lokið grunnskólaprófi. Brotthvarf nemenda úr framhaldsskólum er viðvarandi vandi í íslenska skólakerfinu og er meira hér á landi samanborið við önnur OECD ríki.
Því hefur oft verið haldið fram að verkfræðingar, tæknifræðingar og annað tæknimenntað fólk séu þau sem helst móti samfélög framtíðarinnar. Það er fólkið sem hrindir í framkvæmd eigin hugmyndum og annarra og breytir þannig lífi okkar allra. Þetta sýnir saga verkfræði og tæknifræði á Íslandi sem er í takt við sögu þjóðar sem hefur náð að byggja upp lífskjör sem eru með því besta sem þekkist í heiminum.
Við stöndum á þröskuldi mikilla breytinga þar sem gervigreind og sjálfvirknivæðing mun taka yfir sífellt stærri hlut af tilveru okkar. Þessar breytingar fela í sér miklar áskoranir sem varða allar hliðar samfélagsins. Við slíkar aðstæður er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að eiga öflugt tæknimenntað fólk sem hefur góða fræðilega undirstöðu, skilur hvað liggur að baki tækninni, hvernig hún virkar og ekki síst hvaða hættur, jafnvel siðferðilegs eðlis, hún felur í sér.
Framundan eru kjarasamningar og því er spáð að þar verði hart tekist á. Við höfum ekki efni á því lengur að líta framhjá mikilvægi tæknimenntunar í efnahagsþróun samfélagsins. Það á að meta menntun til launa, en þar verður jafnframt að hafa í huga lögmál framboðs og eftirspurnar.
Heimildir:
Hagfræðistofnun HÍ. Kjör verkfræðinga og tæknifræðinga 2000-2023. (2023)
Samráðsvettvangur jafnréttisfulltrúa háskólanna. Dr. Laufey Axelsdóttir: Staðalímyndir í háskólum. Samantekt ásamt tillögum að gerðum til að jafna hlutfall kynja í háskólanámi á Íslandi. (2023).
Velferðarvaktin. Félagsleg og efnahagsleg staða og brottfall úr íslenskum háskólum. (2022)
Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.
Myndin sem fylgir greininni var tekin þegar formaður Verkfræðingafélags Íslands heimsótti Vísindasmiðju HÍ.