Mótun stefnu um gervigreind

„Skilningur á gervigreind er orðinn hornsteinn í upplýstri lýðræðisþátttöku borgaranna.“

9. apr. 2021

svana_helenNýverið skilaði Verkfræðingafélag Íslands umsögn í Samráðsgátt stjórnvalda um mótun stefnu Íslands um gervigreind. Í framhaldi af umsögninni skrifaði Svana Helen Björnsdóttir, formaður VFÍ, grein sem birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 8. apríl.

Mótun stefnu um gervigreind

Gervigreind er sú tegund greindar sem léð er vélum og er ólík mannlegri greind að því leyti að hún sýnir hvorki tilfinningar né vitund. Hún er notuð til að fela vélum að leysa ýmiss konar verkefni með sjálfstæðum hætti. Þegar fjallað er um gervigreind skal forðast að draga áætlanir um getu hennar út frá getu mannlegrar greindar. Nýlega tilkynntu stjórnvöld að móta ætti opinbera stefnu um gervigreind á Íslandi. Þeir sem til þekkja vita að það er bæði mikilvægt og tímabært.

Óskað var eftir umsögnum í samráðsgátt stjórnvalda. Um málefnið segir þar: „Nú er í vinnslu stefna Íslands um gervigreind. Lýðræðislegar reglur verða að ráða því hvernig gervigreind er notuð og tryggja verður öllum jafnan rétt til að móta þjóðfélag framtíðarinnar. Með það að leiðarljósi eru hér settar fram til samráðs þær grundvallarspurningar sem stefna Íslands um gervigreind mun fást við og jafnframt fyrstu hugmyndir um upplegg og áherslu stefnunnar."

Álitamál sem tengjast gervigreind

Verkfræðingafélag Íslands (VFÍ) fagnar því að fá tækifæri til að koma ábendingum á framfæri varðandi þetta mikilvæga málefni. Í uppleggi að stefnunni er komið inn á samfélags- og siðferðisleg álitamál sem tengjast gervigreind. VFÍ telur að aðgæta þurfi sérstaklega eftirfarandi atriði:

· Leggja verður áherslu á að persónuverndar sé gætt á öllum stigum við þróun gervigreindarlausna.

· Mikilvægt er að huga vel að menntun og fræðslu um gervigreind.

· Meta þarf áhrif gervigreindar á íslenskt atvinnulíf, m.a. þær breytingar á störfum fólks sem munu fylgja gervigreind.

Upplegg stefnunnar ber þess merki að lítið samráð hefur enn verið haft við atvinnulífið og aðila sem vinna að þróun gervigreindarlausna. Mikilvægt er að greina hlutverk gervigreindar til framtíðar og skýra hvaða gildi (t.d. um persónuvernd) skuli höfð að leiðarljósi.

Erfitt getur reynst að tryggja að þau gildi, sem ákveðið verður að halda eigi í heiðri, verði höfð í hávegum þegar kemur að innleiðingu erlendra tæknilausna. Þar má t.d. nefna samfélagsmiðla, vefverslanir, streymisveitur og fréttamiðla. Um hlutverk gervigreindar í íslensku samfélagi er m.a. hvatt til þess að Ísland setji sér markmið um að vera í fremstu röð þegar kemur að sérþekkingu á sviði gervigreindar. Einnig að gervigreind verði notuð til að bæta kennslu á öllum skólastigum. Sér í lagi til að veita nemendum betri og hraðari endurgjöf. Markmiðið með þessu er að auðveldara verði að þróa einstaklingsmiðaðra nám.

Hvað varðar atvinnulífið og hvað þurfi til svo það geti að fullu nýtt gervigreind er í umsögn VFÍ bent á mörg atriði. Má t.d. nefna að auka verði framboð af námskeiðum fyrir tæknimenntað fólk og efla verulega rannsóknir á þessu sviði. Styðja þurfi við sprotafyrirtæki með auknu fjármagni í Tækniþróunarsjóð sem verði eyrnamerkt gervigreindarlausnum. Með skattaafslætti megi laða til landsins erlenda sérfræðinga sem eru ein forsenda þess að hægt verði að byggja upp þekkingu á þessu sviði á skömmum tíma. Þá er uppbygging rannsóknarinnviða nauðsynleg en kostnaður rannsóknarhópa og sprotafyrirtækja við að þjálfa gervigreindarlíkön er umtalsverður. Setja mætti fjármagn í að opna gögn sem nota má við þróun gervigreindarlausna. Dæmi um slíkt eru sérsmíðaðar málheildir fyrir íslensku. Skortur á málheildum er ein af ástæðum þess að ekki er hægt að þróa gervigreindarlausnir fyrir íslensku með sama hraða og fyrir t.d. ensku.

Gagnrýnin hugsun er mikilvæg

Hér hefur verið stiklað á stóru í umsögn VFÍ um málefni sem varðar okkur öll. Við megum ekki líta fram hjá því að við notum tækni æ meira í daglegu lífi. Við stöndum frammi fyrir fjórðu iðnbyltingunni þar sem sjálfvirkni og gervigreind mun hafa afgerandi áhrif á allt okkar líf. Þetta sjáum við nú þegar í því hvernig gervigreind er notuð til að dreifa falsfréttum á samfélagsmiðlum. Skilningur á tækninni er orðinn hornsteinn í upplýstri lýðræðisþátttöku borgaranna. Einnig má nefna notkun gervigreindar í heilbrigðiskerfinu hvort sem það er við greiningu sjúkdóma eða gerð spálíkana um líkamlega og andlega sjúkdóma. Það verður því sífellt mikilvægara að geta tekið á móti upplýsingum með gagnrýninni hugsun sem byggir á grundvallarþekkingu á náttúruvísindum og tækni.

VFÍ á aðild að norrænum samtökum verkfræðinga, ANE (Association of Nordic Engineers). Samtökin hafa innan sinna vébanda 500 þúsund verk- og tæknifræðinga. Á sl. árum hefur ANE lagt mikla vinnu í að móta stefnu og gera tillögur sem varða siðferði og gervigreind. Í umsögn VFÍ er vísað til þessara tillagna. Þeim sem vilja kynna sér umsagnir Verkfræðingafélags Íslands og ítarefni frá ANE er bent á vef félagsins: www.vfi.is

Svana Helen Björnsdóttir,
formaður Verkfræðingafélags Íslands.