Náttúruvísindi - Grunnur að farsælli framtíð

VFÍ hefur margsinnis bent á, og beitt sér fyrir því, að kennsla í stærðfræði og raungreinum verði efld.

18. mar. 2021

Dagana 19. og 20. mars verður ráðstefna um náttúrufræðimenntun og mun Svana Helen Björnsdóttir formaður VFÍ flytja inngangserindi undir yfirskriftinni Náttúruvísindi - Grunnur að farsælli framtíð. Ráðstefnan er á vegum Rannsóknarstofu um náttúrufræðimenntun (RAUN) við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í samstarfi við:
Félag leikskólakennara, Félag raungreinakennara, Háskólann á Akureyri, NaNO, Náttúrutorg og Samlíf, Samtök líffræðikennara.


Í tilefni af ráðstefnunni birtist grein eftir Svönu Helen Björnsdóttur í Morgunblaðinu:

Náttúruvísindi – Grunnur að farsælli framtíð

svana_helenDagana 19. og 20. mars verður ráðstefna um náttúrufræðimenntun. Ráðstefnan er ætluð kennurum á öllum skólastigum í náttúrufræði- og raunvísindagreinum en er opin öllum sem áhuga hafa. Undirrituð mun flytja erindið: Náttúruvísindi – Grunnur að farsælli framtíð. Heiti erindisins vísar bæði til framtíðar hvers einstaklings og til framtíðar jarðarinnar. Að hver einstaklingur sé menntaður til að taka upplýstar ákvarðanir í tæknivæddu nútímasamfélagi og að framtíð jarðarinnar er í höndum þeirra sem hafa þekkingu til að vinna að úrbótum í loftslagsmálum, heilbrigðismálum og öðrum stórum áskorunum sem við blasa.

Með auknum skilningi nemenda á náttúruvísindum verða þeir betur í stakk búnir að leggja mat á ólíkar ógnir sem og tækifæri til að gera heiminn betri. Við eigum því mikið undir því að kynna börnum og ungu fólki undraheim náttúruvísinda á skapandi hátt og vekja áhuga. Þetta sést til dæmis í áherslum UNESCO sem árið 2019 ákvað að framvegis yrði 4. mars Dagur verkfræði og sjálfbærrar þróunar.

Gömul saga og ný

Verkfræðingafélag Íslands var stofnað 1912 og frá upphafi hafa menntunarmál verið einn af hornsteinunum í starfi félagsins. Upphaflega kom þessi áhugi félagsins á menntunarmálum ekki til af góðu einu. Fyrstu íslensku verkfræðinemunum sem fóru til Kaupmannahafnar til náms sóttist námið iðulega seint vegna lélegs undirbúnings í raungreinum.

Í dag stöndum við enn frammi fyrir því að staða raungreina innan skólakerfisins á undir högg að sækja. Verkfræðingafélag Íslands hefur margsinnis bent á, og beitt sér fyrir því, að kennsla í stærðfræði og raungreinum verði efld. Nýlegt dæmi er umsögn félagsins um viðmiðunarstundaskrá grunnskóla, í október 2020. Þar er lýst stuðningi við þá stefnu að auka vægi móðurmáls og náttúrufræði til móts við viðmið nágrannaþjóða okkar. Slíkar úrbætur verður að gera til að tryggja samkeppnishæfni þjóðarinnar á sviði náttúruvísinda og tækni þeim tengdum.

Þar er einnig bent á að ekki nægir að fjölga kennslustundum. Fleiri kennara vantar í grunnskólana sem eru menntaðir í stærðfræði og raungreinum og það verður að styðja vel við bakið á þeim, til dæmis með möguleikum til símenntunar. Einnig þarf að bæta stórlega aðbúnað í skólunum til verklegrar kennslu í raungreinum. Við getum ýmislegt lært með því að líta til hinna Norðurlandanna og læra af því sem þar hefur verið gert til að efla áhuga ungs fólks á vísindum og tækni.

Verkfræðingafélagið hefur komið þeirri skoðun á framfæri að stytting framhaldsskólans hafi verið mistök sem vinda þurfi ofan af. Mikil hætta er á því að nemendur komi nú verr undirbúnir en áður fyrir krefjandi nám í háskóla og ýmis merki eru um að áhrifanna sé nú þegar farið að gæta.

Með nýsköpun, hugvit og tækni að leiðarljósi tökumst við á áskoranir framtíðarinnar. Grunnur að þeim tækifærum er lagður í metnaðarfullu, skapandi og skemmtilegu námi í raunvísindum á öllum skólastigum.

Upplýsingar um ráðstefnuna eru á vefslóð Náttúrutorgs– starfssamfélags náttúrufræðikennara: natturutorg.is

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.

Ljósmynd /geimur: NASA.