Niðurstöður könnunar vegna COVID-19

14% fóru í hlutastarf vegna breyttra aðstæðna.

7. ágú. 2020

Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar sem Verkfræðingafélag Íslands lét gera til að meta stöðu félagsmanna á tímum COVID-19. Könnunin fór fram dagana 10. júní til 4. júlí. Alls svöruðu 1.670 sem gerir 38,8% svarhlutfall.

Niðurstöðurnar eru á margan hátt athyglisverðar. Þær helstu eru teknar saman hér fyrir neðan en niðurstöðurnar í heild má má nálgast hér:  https://maskina.is/maelabord/vfi-covid19/ (Athugið að valmöguleikar eru á stikunni efst).

Breytingar á ráðningarsamningi. 14% fóru í hlutastarf vegna COVID-19 og 2,5% misstu vinnuna. Rúmlega þriðjungur vinnuveitenda nýtti sér hlutabótaleið stjórnvalda. 

Fjarvinna. Fjarvinna var valfrjáls hjá 26% svarenda, hjá 30% var hún vegna fyrirmæla vinnuveitanda. Ríflega 83% unnu fjarvinnu að einhverju leyti. 46,4% voru í fjarvinnu meira en 2/3 hluta tímans.

Tekjuskerðing. Tæplega 81% urðu ekki fyrir tekjuskerðingu. Grunnlaun lækkuðu hjá 5,7% og 4,8% nefna minni yfirvinnu sem skýringu á skertum tekjum. Hjá langflestum, eða 76,7% var tekjuskerðingin undir 25%. Það skiptist nokkuð jafnt hvort tekjuskerðing var að fyrirmælum vinnuveitenda eða í samráði við hann.

Afköst og vinnuskylda í fjarvinnu. Tæp 60% fannst auðvelt að uppfylla vinnuskyldu í fjarvinnu sem þýðir að 40% finnst í meðallagi eða fremur erfitt að uppfylla vinnuskylduna.  Ef litið er á afköst þá telja um 30% þau vera minni í fjarvinnu.

Verkefnaskortur er ekki ástæða fyrir vandkvæðum við vinnu frá heimili. Aftur á móti þurfti nærri helmingur að gæta barna sem annars hefðu verið í leikskóla eða grunnskóla sömu sögu er að segja þegar spurt var um truflun vegna aðstoðar við heimalærdóm. 

Minnihluti þurfti að einhverju marki að takast á við tæknileg vandræði, til dæmis vegna fjarfunda. Einnig virðist vinnuaðstaða heima við yfirleitt vera í góðu lagi.

Atvinnuöryggi og áhrif á starf. Rétt innan við 10% telur í meðallagi eða miklar líkur á að missa vinnunna á næstunni. Þegar spurt er um breytingar á starfi þá nefnir yfirgnæfandi meirihluti, eða 78,3%, að fjarfundir verði fleiri og helmingur að ferðalög erlendis verði færri. Þá búast tæp 40% svarenda við að fjarvinna verði meiri og vinnutími sveigjanlegri. 

Nýting orlofsdaga. Athygli vekur að aðeins tæp 5% þurftu að nota orlofsdaga til að mæta aðstæðum vegna COVID-19. Fyrirfram var búist við að félagsmenn hefðu þurft að nýta sér þetta úrræði í mun meira mæli.

Annað um líf og starf á tímum COVID-19

Í lok könnunarinnar var opin spurning um líf og starf á tímum COVID-19. Þar koma fram afar mismunandi skoðanir á kostum og göllum fjarvinnu. Margir voru mjög ánægðir með að geta unnið heima, aðrir nefndu kvíða vegna þess að geta ekki uppfyllt vinnuskylduna og afköstin væru minni. Þó nokkrir nefndu að andlegri líðan hefði hrakað, meðal annars vegna félagslegrar einangrunar. Eins og búast mátti við hefur staðan verið afar erfið hjá mörgum sem voru heima með ung börn og kemur vel fram að þetta tímabil hefur tekið á.

Áhugavert er að þó nokkrir nefna að opið vinnurými henti þeim illa og meðal annars séu afköst minni vegna truflunar. Fjarvinnan hafi því verið kærkomin.