Niðurstöður könnunar vegna Covid-19

Jákvæðar niðurstöður sem sýna aðlögunarhæfni og þrautseigju.

11. feb. 2021

Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar sem Verkfræðingafélag Íslands lét gera til að meta stöðu félagsmanna á tímum COVID-19. Könnunin fór fram dagana 3. desember 2020 til 10. janúar 2021.  Alls svöruðu 1.864 sem gerir 39,7% svarhlutfall. Könnunin var gerð til að fá samanburð við niðurstöður könnunar sem gerð var í júnímánuði 2020. Að þessu sinni voru einnig spurningar sem eru hluti af samnorrænni könnun á vinnuumhverfi. 

Niðurstöðurnar eru á margan hátt athyglisverðar. Í stuttu máli má segja að þær séu á heildina litið jákvæðar, sýni aðlögunarhæfni félagsmanna og að staðan á vinnumarkaði verkfræðinga og tæknifræðinga virðist góð. 

Niðurstöður könnunarinnar. 
Stikan efst er notuð til skoða niðurstöðurnar og til dæmis bakgrunnsupplýsingar í hverri spurningu. 

Breytingar á ráðningarsamningi. 9% (14%) fóru í hlutastarf vegna COVID-19 og 2,2% (2,5%) misstu vinnuna.

Fjarvinna. Athyglisvert er að mun fleiri voru alfarið í fjarvinnu í nóvember en í júnímánuði. Í nóvember voru 38,6% allan tímann heima en 21,3% í júní. Tæp 20% unnu ekkert heima í nóvember.

Fjarvinna var valfrjáls hjá 23% (26%) svarenda. Í báðum könnunum var fjarvinna vegna fyrirmæla vinnuveitanda hjá um 30% svarenda.

Tekjuskerðing.Tæplega 86,2% (81%) urðu ekki fyrir tekjuskerðingu. Grunnlaun lækkuðu hjá 3,3% (5,7%) og 4,1% (4,8%) nefna minni yfirvinnu sem skýringu á skertum tekjum. Hjá langflestum, eða 77,8 (76,7%) var tekjuskerðingin undir 25%.

Afköst. Ef litið er á afköst þá telja um 30% þau vera minni í fjarvinnu sem er svipuð niðurstaða og í júnímánuði. Um 42% telja afköstin vera svipuð heima og á vinnustað.

Verkefnaskortur er ekki ástæða fyrir vandkvæðum við vinnu frá heimili. Aðeins 3,3% telja sig skorta verkefni. Þá var staðan sú í nóvember að lítil truflun var á fjarvinnu vegna barna og heimalærdóms. Staðan var önnur í júní hvað þetta varðar. Aftur á móti þurfti nærri helmingur að gæta barna sem annars hefðu verið í leikskóla eða grunnskóla sömu sögu er að segja þegar spurt var um truflun vegna aðstoðar við heimalærdóm.

Aðeins um 5% svöruðu því til að þeir hafi að einhverju marki þurft að takast á við tæknileg vandræði, til dæmis vegna fjarfunda. Nokkuð fleiri segja vinnuaðstöðu heima við vera fremur eða mjög óviðunandi eða tæp 20% (13%).

Atvinnuöryggi og áhrif á starf. 8% telur í meðallagi eða miklar líkur á að missa vinnunna á næstunni, sem er svipuð tala og í júní. Þegar spurt er um breytingar á starfi þá nefnir yfirgnæfandi meirihluti, eða 87,5% (78,3%), að fjarfundir verði fleiri og helmingur að ferðalög erlendis verði færri. Þá búast rúm 52,4% (38,8%) svarenda við að fjarvinna verði meiri og vinnutími sveigjanlegri 40,5% (35,9%).

Annað um líf og starf á tímum COVID-19

Í lok könnunarinnar var opin spurning um líf og starf á tímum COVID-19. Þar koma fram afar mismunandi skoðanir á kostum og göllum fjarvinnu. Margir voru mjög ánægðir með að geta unnið heima en nokkuð margir nefndu kvíða og félagslega einangrun, jafnvel þunglyndi. Þá er vinnuaðstaða heima afar mismunandi og nokkuð um að nefnd séu stoðkerfisvandamál sem tengjast því.