"Nördajólagjöf" - Ókeypis vefbók
Bók um kolefnishringrásina á jörðinni, kolefnisbindingu og CarbFix
Sigurður Reynir Gíslason rannsóknaprófessor við Jarðvísindastofnun HÍ sendi skemmtilegt bréf á skrifstofu Verkfræðingafélagsins sem hann bað um að yrði komið áfram til félagsmanna. Það er sjálfsagt að verða við því, bréfið inniheldur boð um að ná sér í ókeypis vefbók um kolefnishringrásina á jörðinni, kolefnisbindingu og CarbFix verkefnið. Sigurður endar bréfið á því að segja að bókin sé tilvalin „nördajólagjöf".
Bréfið hljóðar svona:
Kæru verkfræðingar og tæknifræðingar.
Verkfræðingar voru í lykilhlutverki í CarbFix verkefninu og eru það áfram í verkefnum Carbfix fyrirtækisins.
Eitt fyrsta erindi mitt um CarbFix aðferðina var á félagsfundi Verkfræðingafélagsins 11. janúar 2007. Við vorum ekki einu sinni búin að skrifa undir samninga um verkefnið, og CarbFix nafnið var ekki komið á aðferðina. Ég kallaði erindi „Binding CO2 í bergi“ og Steinar Friðgeirsson þáverandi formaður VFÍ stjórnaði fundi í fullum sal á Engjateig 9.
Ég sendi ykkur hér krækju á “Bókina” okkar Eric‘s sem kom út í vefheimum fyrir nokkrum vikum síðan, og er vefútgáfan ókeypis.
Evrópusamtök jarðefnafræðinga gefur bókina út í bókaröð sem kallast „Geochemical Perspectives“ og koma venjulega út tvær bækur á ári. Bókin okkar Eric‘s er hausteintakið 2023.
Oelkers E.H and Gislason S.R. (2023). Carbon Capture and Storage: From Global Cycles to Global Solutions. Geochemical Perspectives 12, 179-349, doi: 10.7185/geochempersp.12.2
Fyrri hluti bókarinnar fjallar um kolefnishringrásina á jörðunni og hvernig við, meðal annars, náðum að skilgreina loftslagsáhrif veðrunar basalts sem bindur koltvíoxíð, og gagnvirk áhrif loftslagbreytinga og veðrunar vegna gróðurhúsaáhrifa, í samstarfi við Eydísi Eiríksdóttur, Veðurstofuna, Landsvirkjun, Umhverfisráðuneytið og fleiri.
Seinni hlutinn fjallar um kolefnisföngun og bindingu, CarbFix verkefnið, sem við unnum í samstarfi við doktorsnema, nýdoktora, Orkuveituna, CNRS í Frakklandi, Columbia háskólann í NY og fleiri. Og loks framtíðarhorfur steinrenningar koltvíoxíðs.
Enn fremur eru áhugaverðir sögukaflar um upphaf og lok CarbFix verkefnisins, en saga verkefnisins er rakin með lýsingum á einstökum doktorsverkefnum í tímaröð.
Við vonum að þið njótið og sendið krækjuna á bókina til samstarfsmanna, fjölskyldu og vina. Bókin ert tilvalin „nördajólagjöf“.
Það er best að skoða bókina í “two page view”. Uppröðun mynda og texta miðast við opnulestur.