Norrænu félögin standa saman

Tillögur ANE - Tíu skref til að takast á við áskoranir vegna COVID-19.

12. maí 2020

ANE (Association of Nordic Engineers) eru samtök félaga verkfræðinga og tæknifræðinga á Norðurlöndunum. Samtals eru félagsmenn um 500 þúsund. ANE sendi nýverið norrænu viðskiptaráðherrunum tillögur í tíu skrefum til að takast á við áskoranir tengdar COVID-19. Tillögurnar eru í nafni allra félaganna og undirritaðar af formönnum þeirra. Tillögur ANE til norrænu ráðherranna.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands, segir afar mikilvægt að Norðurlöndin standi saman sem ein heild í því verkefni að takast á við afleiðingar COVID-19. „Nýsköpun, hugvit og tækni eru lykilorðin í að vinna okkur út úr vandanum og þar gegna verkfræðingar og tæknifræðingar mikilvægu hlutverki. COVID-19 mun hafa varanlegar breytingar í för með sér fyrir fólk og fyrirtæki og tæknimenntun og -þekking er lykillinn að þeirri nýsköpun sem nú er kallað eftir." Hún bætir því við að frumkvæði Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um þver-norræna nálgun í viðbrögðum við COVID-19 hafi strax hlotið hljómgrunn innan ANE og í framhaldi af því hafi tillögurnar verið mótaðar. 

Norrænu ráðherrarnir samþykktu um miðjan aprílmánuð að stofna „þver-norrænan hóp sem, með aðstoð norrænu ráðherranefndarinnar, leggur áherslu á að vera hraðall og mun gera útlínur að norrænum vegvísi fyrir nánara samstarf á sviðum þar sem ríkin geta unnið saman með það að markmiði að endurræsa hagkerfi sín eftir COVID-19." Eins og segir í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Norðurlöndin í forystuhlutverki

ANE leggur áherslu á að í þver-norrænu samstarfi eigi áherslan að vera á græn orkuskipti, fjárfestingar í nýsköpun og sjálfbærni. Þá marki samtakamáttur og sameiginleg gildi svæðinu sérstöðu í þeim viðfangsefnum sem framundan eru.

Í tillögum ANE eru nefnd tíu skref sem Norðurlöndin geti stigið í sameiningu til að takast á við hagrænar og samfélagslegar áskorarnir vegna COVID-19. 

  1. Sameiginleg sýn fyrir græn orkuskipti.
  2. Norrænt hringrásarhagkerfi.
  3. Kolefnisjöfnun samgangna.
  4. Aukin skilvirkni og hagkvæmni á raforkumarkaði.
  5. Minni notkun jarðefnaeldsneytis í iðnaði.
  6. Rrannsóknir á nýrri tækni.
  7. Rannsóknir á sviði gervigreindar.
  8. Áhersla á hæfniþróun og endurmenntun.
  9. Gagnaöryggi og persónuvernd.
  10. Stafrænt sjálfræði.

Í tillögum ANE er einnig bent á mikilvægi þess að Norðurlöndin í heild verði efnahagslega sjálfstætt svæði  með opin landamæri án viðskiptahindrana þar sem áhersla er á traust tengsl við Evrópusambandið og önnur lönd Evrópu.