Leyfisferli - Leiðir til úrbóta

Fjölmennur morgunverðarfundur VFÍ

16. feb. 2017


Stjórnvöld þurfa að endurskoða leyfisferli framkvæmda og stuðla þannig að skilvirkni og sátt. Þetta kom fram á morgunverðarfundi Verkfræðingafélags Íslands.
Fundurinn var framhald af fundi í nóvember þar sem greindir voru kostir og gallar núverandi leyfisferlis framkvæmda á Íslandi. 

Upptaka frá fundinum.

Markmið fundarins  var að halda umræðunni áfram og velta upp leiðum til úrbóta. Reynt var að svara spurningum eins og hvað er til ráða? Hvernig er hægt að standa að opinberum framkvæmdum svo vel sé án þess að kostnaður verður óheyrilegur og tafir miklar? Þarf að gera breytingar á reglum eða löggjöf?

Samantekt

Tímarammi of rúmur
Gylfi Árnason verkfræðingur fór yfir samantekt frá fundinum í nóvember, meðal annars athugasemdir við núverandi ferli. Þar kom fram að ferlið er tímafrekt og kostnaðarsamt, réttur til að kæra framkvæmdir og þar með tefja mál er of rúmur og stofnanir og úrskurðarnefndir virða ekki tímaramma.


Brött lærdómskúrfa
Forstjóri Skipulagsstofnunar, Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, situr í nefnd um endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Hún vildi draga fram það jákvæða við núverandi fyrirkomulag. Það væri vel mögulegt að standa að framkvæmdum án þess að kostnaður og tafir verði óheyrilegar. Ekki væri rétt að stilla málum þannig upp að við stæðum almennt frammi fyrir miklum vanda en vissulega væri mætti bæta ýmislegt.

Ásdís minnti á að núverandi umgjörð þessara mála hefði mótast á mjög stuttum tíma. Á aðeins tuttugu árum hafi verið innleidd nútímaleg umgjörð sambærileg þeirri sem hefði þekkst mun lengur í nágrannalöndunum. Þar væri tekið tillit til jafnræðis, öryggis, réttinda borgaranna og umhverfis. Lærdómskúrfan væri því ansi brött. Ásdís áréttaði að það yrði að fara varlega í að skerða réttindi borgaranna til að hafa áhrif.

Sameina þarf sveitarfélög
Ásdís fór yfir sex atriði sem myndu leiða til úrbóta að hennar mati.

Stjórnvöld þurfa að beita sér fyrir sameiningu sveitarfélaga. Lítil sveitarfélög hafa ekki burði til að fara með svo víðtækt vald í skipulagsmálum. Sveitarfélög með færri en eitt þúsund íbúa ráða varla við skyldur í þessum málaflokki. Hún nefndi sem dæmi að hér á landi eru 41 sveitarfélag með færri en eitt þúsund íbúa, þar af 26 með færri en 500 íbúa.

Tryggja verður nægar fjárveitingar til stofnana sem fara með þessi mál. Oft er vísað til þess að afgreiðslutími sé of langur en hann á skýringar í skorti á fjármagni og mannafla.

Breyta þurfi löggjöf um framkvæmdaleyfi þannig að framkvæmdaaðilar sjái sér hag í að sækja fyrr um leyfi. Þetta geti dregið úr líkum á óvissu eftir að framkvæmdir eru hafnar. Rýmka megi möguleika þannig að hægt sé að sækja um framkvæmdaleyfi áður en endanlegar áætlanir liggi fyrir og einnig að almennur líftími framkvæmdaleyfa verði lengdur.

Löggjafinn verði að stýra betur leikreglum sem varða mat á umhverfisáhrifum. Það á bæði við um gildistíma og hvenær sé réttlætanlegt að beita endurskoðun á umhverfismati.

Kanna möguleika á að auka skilvirkni með því að samþætta umhverfismat og skipulagsferli. Til dæmis megi sameina kynningartíma og samnýta gögn.

Endurskoða þarf löggjöf um eignarnám
Einar Farestveit lögfræðingur fór yfir lagarammann þegar semja þarf við landeigendur. Hann minnti á þá grundvallarreglu að framkvæmdaleyfi veitir ekki heimild til framkvæmda á einkalandi án samnings eða eignarnáms. Hann sagði nauðsynlegt að endurskoða lög um eignarnám sem eru frá 1973 og einnig málsmeðferðarreglur. Til dæmis þurfi betri leiðbeiningar um hvað þurfi að koma til svo eignarnámi verði beitt. Til dæmis þegar landeigandi er óhagganlegur í andstöðu sinni og dómstólaleiðin tekur langan tíma. Þá hafi í nýlegum dómum komið fram aukinn krafa á framkvæmdaaðila um samningaferli gagnvart landeigendum og undirbúning framkvæmda. Dómstólar hafi nýverið gengið langt inn í framkvæmdina og í raun haft skoðun á því hvaða leiðir séu færar. Með þessu hafi verið sett fordæmi sem taka verði tillit til. Það vanti því ítarlegar leiðbeiningar til framkvæmdaaðila.

Gildistími umhverfismats
Pallborðsumræður voru að loknum framsöguerindum. Frummælendur sátu fyrir svörum auk Guðmundar Inga Guðbrandssonar, framkvæmdastjóra Landverndar.

Guðmundur tók fyrstur til máls og minnti á að kæruréttur umhverfissamtaka hafi komið til fyrir einungis þremur árum. Hann sagði kærumálin fyrst og fremst tvenns konar. Í fyrsta lagi kærur um matsskyldu, þ.e. að framkvæmdir eigi að fara í umhverfismat. Í öðru lagi kærur framkvæmdaleyfa þar sem kærandi vill meina að umhverfismat sé úrelt. Gildistími umhverfismats er tíu ár sem Guðmundur telur allt of langan tíma, í raun eigi matið að vera „up to date“ eins og hann orðaði það.  Þá telur hann nauðsynlegt að hægt sé að kæra framkvæmdaleyfi. Slíkar kærur hafi ekki verið margar og flestar tengst Landsneti og umræðu um jarðstrengi. Guðmundur sagði hugsanlegt að skoða gildistíma framkvæmdaleyfa ef á móti kæmi að gildistími umhverfismats væri styttur.

Einar Farestveit sagði aftur á móti nauðsynlegt að hafa ákveðna festu. Hönnun og framkvæmdir taki langan tíma og ekki raunhæft að hafa umhverfismatið opið.

Þátttakendur voru sammála um að ýmis tækifæri væru til úrbóta. Samþætta megi matsferil og skipulagsferil, huga þurfi að getu sveitarfélaga til að takast á við verkefnin, löggjafinn þurfi að endurskoða lagarammann og stofnanir hafi ekki næg fjárráð og mannafla.

Gylfi Árnason skyldi frummælendur og fundargesti eftir með þá spurningu hver tæki við boltanum og hvernig væri hægt að ýta á eftir breytingum? - Boltinn er hjá stjórnvöldum.

Deild stjórnenda og sjálfstætt starfandi mun halda þriðja fundinn um leyfisveitingar framkvæmda. Hann verður líklega í maí og þar verður kallað eftir viðbrögðum hjá stjórnvöldum.