Ný umsögn: Reglur um fjárframlög háskóla
Taka þarf tillit til sérstöðu náms í tæknigreinum.
Stjórn Verkfræðingafélags Íslands hefur skilað umsögn um reglur um fjárframlög til háskóla sem Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið lagði fram til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Þar er lýst forsendum og samsetningu fjárframlaga úr ríkissjóði til háskóla.
Í umsögn VFÍ segir meðal annars:
„Tækninám krefst aðgengis að dýrri aðstöðu til kennslu verklegra greina, mikillar verkefnavinnu og sérhæfðra námskeiða. Þessar breytingar á fjármögnun munu því grafa undan gæðum kennslu í þessum greinum, þvert á yfirlýstar áherslur stjórnvalda.
Þó fagna megi aukningu til félags- og hugvísindagreina, þá bendir niðurskurður til tæknináms ekki til þess að alvara sé á bak við hinar yfirlýstu áherslur á STEM-greinar.
Þá þarf einnig að koma til meira fjármagn til rannsókna innan STEM-greina, og mikilvægt að tengja ekki fjármögnun að miklu leyti við sókn í erlent rannsóknafé. Það skerðir mjög möguleika til rannsókna, sem hafa sérstakt mikilvægi á Íslandi.
Jafnframt er hætta á því að aukin tenging fjármögnunar við fjölda útskrifaðra nema geti leitt til þess að háskólarnir útskrifi fólk með meistaragráðu í verkfræði, sem ekki hefur þá færni sem samfélagið verður að geta treyst á.
Gæðakerfi háskólanna taka ekki á þessari hættu. Gæðakerfin eru hönnuð til að fylgja því eftir að fullnægjandi kerfi og mannauður séu fyrir hendi innan stofnana til að halda utan um starfsemina, ekki til að fylgjast með faglegu námsmati akademísks starfsfólks í einstaka greinum. Mikil áhersla á að fjölga útskriftuðum getur þvingað deildir til að beita háskólakennara þrýstingi til að hleypa í gegn nemendum sem uppfylla ekki eðlileg viðmið um þekkingu, leikni og hæfni.“
Verkfræðingafélag Íslands vill taka þátt í stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku. Félagið er virkur umsagnaraðili um málefni er tengjast hagsmunum félagsmanna og samfélagsins í heild.
Allar umsagnir VFÍ er hægt að nálgast hér.
Myndin er fengin á vef Háskólans í Reykjavík.