Nýárskveðja frá formanni VFÍ

Svana Helen Björnsdóttir formaður Verkfræðingafélags Íslands.

19. jan. 2023

Kæru félagar í Verkfræðingafélagi Íslands, gleðilegt nýtt ár!

Nú, í upphafi árs 2023, eru félagar í Verkfræðingafélaginu 5.288 talsins og fjölgaði þeim um 5,5% á nýliðnu ári. Félagafjölgunin hefur verið stöðug undanfarin ár. Það er vísbending um breytta tíma að nú fjölgar konum hraðar en körlum í félaginu og voru þær 1.131 um áramótin, eða 21,4% félagsmanna.

110 ára afmæli

Árið 2022 var 110. starfsár félagsins og vildi stjórnin gera starfsárið eftirminnilegt með ýmsum hætti. COVID-faraldurinn setti þó strik í reikninginn og fresta varð öllum viðburðum til haustsins eða fella niður. Þó náðist að halda myndarlegan Dag verkfræðinnar með fjölbreyttum fyrirlestrum og veitingu Teningsins, viðurkenningar sem hlotið hefur verðlaun fyrir einstaklega fallega og athyglisverða hönnun. Samhliða Degi verkfræðinnar var haldin alþjóðleg ráðstefna, IMaR, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og voru báðir viðburðirnir fjölsóttir og tókust vel.

Merkilegur áfangi í útgáfu

Útgáfu Verktækni var breytt á liðnu ári og er nú alþjóðleg og í samræmi við kröfur sem gerðar eru til birtingar ritrýndra fræðigreina og skráningar í gagnagrunninn SCOPUS. Lögð var áhersla á að megin tungumál útgáfunnar væri íslenska en fræðimenn geta valið að birta á íslensku eða ensku. Vandað er til ritrýni og nú er birting greina í opnum aðgangi (e. open access) án sérstakra gjalda. Verktækni hefur einnig fengið enskt heiti samhliða því íslenska og heitir nú „Icelandic Journal of Engineering“. Útgáfan er rafræn og settur var í loftið nýr vefur fyrir tímaritið, ije.is. Í lok hvers árs eru greinarnar gefnar út á prenti. Þessar breytingar eru merkilegur áfangi í útgáfusögu Verkfræðingafélagsins sem má rekja allt aftur til upphafsins 1912.

Þjónusta og kjaramál

Í desember 2022 var framkvæmd þjónustukönnun meðal félagsmanna og niðurstöðurnar sýna að ánægja með þjónustu félagsins hefur aukist á öllum sviðum frá árinu 2019 þegar sambærileg könnun var gerð. Niðurstöðurnar verða birtar á heimasíðu félagsins.

Kjarasamningur Verkfræðingafélagsins við Félag ráðgjafarverkfræðinga (FRV) var undirritaður skömmu fyrir jól. Samningurinn var samþykktur með miklum meirihluta atkvæða og er ánægjulegt hversu þátttaka var góð í atkvæðagreiðslunni. Nú er unnið að undirbúningi annarra kjarasamninga, bæði við Samtök atvinnulífsins og opinbera geirann. Stefna félagsins er að virða eigi menntun til launa og að mikil eftirspurn eftir tæknimenntuðu fólki eigi að endurspeglast í góðum starfskjörum.

Sterk fjárhagsleg staða

Rekstur félagsins og sjóða í umsjón þess hefur gengið vel síðastliðin ár og fjárhagsleg staða er traust. Félagsgjöldin hafa verið óbreytt frá árinu 2017 og er líklegt að á aðalfundi í apríl verði lagt til að þau haldist óbreytt.

COVID-faraldurinn virðist að baki og rekstur félagsins er smám saman að færast aftur í það sem kalla má eðlilegt horf, þ.e. með staðfundum hvers konar, ráðstefnum og málþingum. Faraldurinn kallaði á að fundir væru í beinu streymi og verður framhald á því, enda greinileg ánægja meðal félagsmanna.

Sterkt bakland

Stjórn félagsins hefur haldið þrjá samráðsfundi með baklandi félagsins á síðustu 18 mánuðum og hafa þeir verið afar gagnlegir og ánægjulegir. Til samráðsfundanna eru boðaðir allir þeir félagsmenn sem með einhverjum hætti starfa fyrir félagið. Samráðsfundunum er ætlað að stuðla að góðu upplýsingastreymi milli þeirra sem starfa fyrir félagið, bæta yfirsýn og samhug, og vera til ráðgjafar og stuðnings við stjórn. Skipst hefur verið á upplýsingum og félagsstarfið og stefnumál rædd. Það er samdóma álit allra sem þátt hafa tekið að fundirnir hafa verið til gagns og ánægjulegir. Meðal þess sem rætt hefur verið á þessum vettvangi eru niðurstöður stefnumótunarvinnu frá 2018. Endurskoðun og umræða samráðsfunda hefur leitt til þess að nokkur áherslumál hafa verið valin til úrvinnslu á þessu ári. Þar má nefna: Gerð innri félagavefs með félagatali og gerð stuttmyndar um sögu verkfræðinnar og framtíð hennar, sem frumsýnd verður á vormánuðum.

Meðal þess sem fram kom í stefnumótun árið 2018, og hefur einnig komið fram á samráðsfundum, er vilji félagsmanna til að gera Verkfræðingafélagið sýnilegra í opinberri umræðu og öflugra í umræðu um hagsmunamál verkfræðinga og tæknifræðinga. Meðal mála sem stjórn félagsins hefur gert að umræðuefni opinberlega á síðustu misserum er fúsk og slæleg vinnubrögð í byggingariðnaði. Félagið hefur minnt á mikilvægi góðs undirbúnings og hönnunar ekki síður en vandaðra vinnubragða á byggingarstað. Nú þegar rætt er um nauðsynlegt átak í byggingu íbúðarhúsnæðis, er fagmennska og vönduð vinna á öllum stigum forsenda þess að vel takist til við að búa fólki gott og heilsusamlegt húsnæði.

Mörg önnur málefni, ekki síður brýn, munu verða til umfjöllunar á vettvangi félagsins og opinberlega á næstu mánuðum. Þau varða meðal annars orkuskipti, umhverfis- og loftslagsmál, öryggi innviða landsins, áhrif styttingar framhaldsskólans á háskólanám, starfsumhverfi, aðalskipulag borga og bæja – svo dæmi séu nefnd.

Umsagnir í Samráðsgátt

Loks má nefna að stjórn hefur verið ötul við að skila inn umsögnum í samráðsgátt stjórnvalda og til Alþingis. Um er að ræða umsagnir um ýmis mál, s.s. lagafrumvörp, er varða hagsmuni félagsmanna og þjóðfélagið í heild eftir atvikum. Stjórn áformar að kynna þessar umsagnir betur, bæði fyrir félagsmönnum og einnig opinberlega með greinaskrifum.

Við sem störfum í stjórn Verkfræðingafélagsins erum samhentur hópur og samvinnan við starfsfólk félagsins hefur verið mjög góð. Ég tala í nafni okkar allra þegar ég óska ykkur félagsmönnum gæfu og farsældar á öllum sviðum lífsins. Við vinnum fyrir ykkur. Ef þið hafið ábendingar um það sem betur mætti fara í félagsstarfinu, mál sem ástæða er til að fjalla um, hugmyndir að verkefnum, eða viljið taka virkan þátt í félagsstarfinu – þá endilega hafið samband við skrifstofu félagsins eða mig.

Með hlýrri kveðju,

Svana Helen Björnsdóttir,
formaður Verkfræðingafélags Íslands.