Nýárskveðja frá formanni VFÍ

Svana Helen Björnsdóttir formaður Verkfræðingafélags Íslands.

5. jan. 2024

Kæru félagar í Verkfræðingafélagi Íslands, gleðilegt nýtt ár!

Nú, í upphafi árs 2024, eru félagar í Verkfræðingafélaginu 5.600 talsins og fjölgaði þeim um 5,9% á nýliðnu ári. Félagafjölgunin hefur verið stöðug undanfarin ár og er það einkar ánægjulegt. Það er vísbending um breytta tíma að áfram fjölgar konum hraðar en körlum í félaginu og voru þær 1.259 um áramótin, eða 22,5% félagsmanna. Fjárhagsleg staða félagsins og sjóða í vörslu þess er góð sem gefur tækifæri til að styrkja starfsemina og þjóna félagsmönnum enn betur. 

Trúin á tæknina. - Samstarf við systurfélag í Portúgal

Á Degi verkfræðinnar í nóvember var sýnd stikla til að kynna nýja heimildamynd sem VFÍ hefur látið gera um sögu verkfræði á Íslandi og hefur hlotið vinnuheitið Trúin á tæknina. Myndin verður frumsýnd á næstu mánuðum. Verkefnið er afar metnaðarfullt og mun umfangsmeira en í fyrstu var ráðgert, enda er verkfræðin samofin sögu þjóðarinnar og þeim miklu samfélagslegu breytingum sem orðið hafa á síðustu öld. 

Dagur verkfræðinnar var sem fyrr mjög vel sóttur og vakti athygli. Við það tilefni var Teningurinn afhentur fyrirtækinu Össuri fyrir vel leyst verkefni. Ákveðið hefur verið að færa Dag verkfræðinnar til vors, eins og var fyrir Covid faraldurinn. Dagur verkfræðinnar verður 19. apríl og samhliða verður IMaR ráðstefnan haldin í annað sinn í samstarfi við Háskólann í Reykjavík þann 18. apríl 2024 (www.imar.is).

Það er gaman að segja frá því að í afar vel heppnaðri rýniferð VFÍ til Lissabon í september sl. var skrifað undir samstarfssamning við portúgalska verkfræðingafélagið, Ordem Dos Engenheiros. Forsvarsmenn þess hafa mikinn áhuga á íslenskri þekkingu á sviði grænnar orku og við getum mikið af þeim lært, til dæmis á sviði byggingarrannsókna. 

Mikilvægi tæknimenntunar og kjaramál

Framundan eru kjaraviðræður og virðist stefna í að þær verði erfiðar. Í grein minni sem birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2023 fjallaði ég um mikilvægi tæknimenntunar. Vildi ég koma þeirri skoðun minni á framfæri að ekki verði við það unað að enn á ný verði háskólamenntað fólk látið sitja eftir við gerð kjarasamninga. Nauðsynlegt sé að meta menntun til launa en jafnframt að ekki eigi að líta á menntunarstig sem slíkt heldur verði að taka tillit til eftirspurnar á vinnumarkaði og þarfa samfélagsins. Með öðrum orðum; mikil eftirspurn er eftir tæknimenntuðu fólki og það á að endurspeglast í góðum starfskjörum. 

Í greininni segir orðrétt: „Í síðustu kjarasamningum var lögð áhersla á hækkun lægstu launa, með það að markmiði að jafna kjör fólks. Að kröfu verkalýðsforystunnar hefur verið gripið til krónutöluhækkana í stað prósentuhækkana. Tímabært er að staldra við og spyrja hverju þetta hafi skilað? Fyrir liggur skýrsla sem Verkfræðingafélagið fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að semja og niðurstöðurnar eru óneitanlega sláandi. Skýrslan sýnir það svart á hvítu að verkfræðingar, ekki síður en aðrar háskólastéttir, hafa dregist verulega aftur úr í launum. Reyndar svo mikið að hér er nú minnstur munur í Evrópu á ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra og ófaglærðra.“ 

Krefjandi verkefni í byggingariðnaði

Viku seinna birtist önnur grein eftir mig í Morgunblaðinu sem vakti athygli og sýndi að málefnið brennur á mörgum. Þar gerði ég að umtalsefni alvarlega stöðu í byggingarrannsóknum hér á landi og slök gæði bygginga. Í greininni segir meðal annars: „Áður voru alkalískemmdir í steypu rannsakaðar hjá Rb og lausnir fundnar. Við búum í landi erfiðra veðurskilyrða, jarðhræringa og eldgosa. Áraun bygginga er meiri og annars konar en víðast annars staðar. Byggingargöllum í nýbyggðum húsum hér á landi fjölgar sífellt. Má þar nefna myglu og rakaskemmdir, sem eru útbreitt vandamál, jafnvel í nýbyggðum húsum. Sum byggingarefni, sem teljast fullnægjandi annars staðar, reynast ónothæf fyrir okkar umhverfis- og veðurskilyrði. Það er skylda hins opinbera að tryggja öfluga neytendavernd og verja húsnæðiskaupendur gegn fúski. Það felst m.a. í því að tryggja að hér séu stundaðar sjálfstæðar byggingarrannsóknir án hagnaðarsjónarmiða og að tekið sé hart á slælegum vinnubrögðum verktaka.“ Verkfræðingafélagið mun halda þessari umræðu áfram og nú þegar er hafinn undirbúningur málþings um fúsk í byggingariðnaði sem haldið verður 22. febrúar 2024. 

Það er alvarlegt vandamál að stjórnmálamenn skortir skilning á mikilvægi djúprar fagþekkingar og mörg þeirra vandamála sem við blasa í innviðum og orkugeiranum hér á landi má einmitt rekja til þessarar staðreyndar. 

Sterk fjárhagsleg staða – lág félagsgjöld

Eins og kom fram hér að framan er rekstur Verkfræðingafélagsins og sjóða í umsjón þess mjög traustur. Félagsgjöldin hafa verið óbreytt frá árinu 2017 og er líklegt að á aðalfundi í apríl nk. verði lagt til að þau haldist óbreytt. Það er rétt að vekja hér athygli á því að Verkfræðingafélagið hefur þá sérstöðu að félagsgjaldið er lágt, föst fjárhæð en ekki prósenta af launum. Félagið hefur því ekki tekið til sín sjálfkrafa hækkanir á félagsgjaldi vegna hækkunar launa, eins og önnur stéttarfélög hafa gert. 

Sterkt bakland

Stjórn félagsins boðaði til tveggja samráðsfunda með baklandi félagsins á síðasta ári. Sem fyrr voru þessir fundir afar gagnlegir og ánægjulegir. Til samráðsfundanna eru boðaðir allir þeir félagsmenn sem með einhverjum hætti starfa fyrir félagið. Samráðsfundunum er ætlað að stuðla að góðu og gagnvirku upplýsingastreymi, bæta yfirsýn og samhug og vera til ráðgjafar og stuðnings við stjórn. Skipst hefur verið á upplýsingum og félagsstarfið og stefnumál rædd. Það er samdóma álit allra sem þátt hafa tekið að fundirnir hafa verið til gagns og ánægjulegir. Meðal þess sem rætt hefur verið á þessum vettvangi eru kjaramál og hvaða leiðir eigi að fara til að gera félagið meira áberandi í samfélagsumræðunni. Þau mál eru vissulega vandmeðfarin því í fjölmennu félagi eru mismunandi skoðanir. Stjórn félagsins lítur þannig á að það sé afar mikilvægt að rödd verkfræðinga og tæknifræðinga heyrist í samfélagsumræðunni og nú er unnið að því að móta leiðir til að efla þann lið í starfseminni. 

Nýr vefur

Vinna er hafin við nýjan vef félagsins. Verður meðal annars sett upp rafrænt félagatal og er markmiðið að efla tengslanet félagsmanna, til dæmis þeirra sem vinna á sömu fagsviðum. 

Umsagnir í Samráðsgátt

Stjórn félagsins var sem fyrr ötul við að skila inn umsögnum í samráðsgátt stjórnvalda og til Alþingis. Um er að ræða umsagnir um ýmis mál, s.s. lagafrumvörp, er varða hagsmuni félagsmanna og þjóðfélagið í heild eftir atvikum. 

Við sem störfum í stjórn Verkfræðingafélagsins erum samhentur hópur og samvinnan við starfsfólk félagsins hefur verið mjög góð. Ég tala í nafni okkar allra þegar ég óska ykkur félagsmönnum gæfu og farsældar á öllum sviðum lífsins. Það er ánægjulegt og gefandi að taka þátt í störfum fyrir félagið og vinna að hagsmunum félagsmanna, hvort sem það er á sviði kjaramála eða við faglegt starf sem er mikilvæg undirstaða þess að hægt sé að sækja betri kjör.

Ég vil hvetja félagsmenn til að koma með ábendingar um það sem þeir telja að megi betur fara í starfsemi félagsins og hugmyndir að verkefnum. Einnig vil ég hvetja ykkur til að bjóða fram krafta ykkar í starfi félagsins og má hafa samband við skrifstofu félagsins eða senda mér tölvupóst. Sérstaklega vil ég hvetja yngri félagsmenn til að leggja félaginu lið og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Með hlýrri nýárskveðju,

Svana Helen Björnsdóttir,
formaður Verkfræðingafélags Íslands.

svanahb@ru.is