• Vatnajokull_pm

Nýjar ritrýndar greinar

Breyting á fyrirkomulagi útgáfu.

6. jan. 2020

Unnið er að breytingum á fyrirkomulagi útgáfu hjá Verkfræðingafélagi Íslands. Í stað útgáfu Verktækni tímarits Verkfræðingafélags Íslands verður áherslan á útgáfu ritrýndra greina á vefnum og í takmörkuðu upplagi á prentuðu formi fyrir hvert almanaksár. Greinar ársins 2019 má nálgast á vefnum og verður fljótlega gefið út prentað rit með greinunum. Því verður ekki dreift til félagsmanna en hægt verður að panta ritið á skrifstofu félagsins.

Icelandic Journal of Engineering - Verktækni tímarit VFÍ

Tímaritið er gefið út af Verkfræðingafélagi Íslands (VFÍ). Í ritinu eru birtar ritrýndar fræðigreinar og er unnið að skráningu í Scopus gagnagrunninn. Það sýnir vilja Verkfræðingafélags Íslands að gefa út fræðigreinar samkvæmt góðum og viðurkenndum vísindalegum aðferðum. Markmiðið er að tímaritið verði ISI-tímarit, þ.e. alþjóðlegt fræðirit í fyrsta flokki.

Verktækni tímarit Verkfræðingafélags Íslands kom fyrst út í september 2013. Í tímaritinu voru birtar ritrýndar greinar og almennar tækni- og vísindagreinar auk annars efnis. Í árslok 2019 varð sú breyting á útgáfunni að í tímaritinu eru nú eingöngu birtar ritrýndar fræðigreinar. Hægt er að nálgast allar greinar frá 2013 á vef VFÍ.

Unnið er að uppsetningu ritsins á vefnum og verður vefsvæðið opnað innan tíðar.

Útgáfuform

Frá áramótum 2019 - 2020 verða fræðigreinar birtar á vef tímaritsins jafnóðum og þær eru tilbúnar til birtingar. Aðgangur er opinn (e. open access). Í lok hvers almanaksárs er gefið út prentað tölublað með greinum nýliðins árs. Hægt er að panta prentað tölublað á skrifstofu VFÍ. Greinar sem óskað er eftir að birtist á yfirstandandi ári þurfa að berast ritstjórnarfulltrúa fyrir lok septembermánaðar. Tímaritið verður með vefsvæði annars vegar á íslensku og hins vegar á ensku.