Nýsköpun, hugvit og tækni til að takast á við afleiðingar COVID-19
Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. júní 2020.
Norræn félög verkfræðinga og tæknifræðinga hafa lagt fram tillögur um leiðir til að takast á við afleiðingar COVID-19.
COVID-19 faraldurinn mun hafa varanlegar breytingar í för með sér fyrir fólk og fyrirtæki. Tæknimenntun og -þekking er lykillinn að þeirri nýsköpun sem nú er kallað eftir. Með nýsköpun, hugvit og tækni að leiðarljósi munum við vinna okkur út úr vandanum og þar gegna verkfræðingar og tæknifræðingar mikilvægu hlutverki.
Verkfræðingafélag Íslands er aðili að ANE (Association of Nordic Engineers) samtökum félaga verkfræðinga og tæknifræðinga á Norðurlöndunum. Samtals eru félagsmenn um 500 þúsund. ANE sendi nýverið norrænu viðskiptaráðherrunum tillögur í tíu skrefum til að takast á við áskoranir tengdar COVID-19. Tillögurnar eru í nafni allra félaganna og undirritaðar af formönnum þeirra. Frumkvæði Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um þver-norræna nálgun í viðbrögðum við COVID-19 hlaut mikinn hljómgrunn innan ANE og í framhaldi af því voru áðurnefndar tillögur mótaðar.
Norðurlöndin í forystuhlutverki
ANE leggur áherslu á að í þver-norrænu samstarfi eigi áherslan að vera á græn orkuskipti, fjárfestingar í nýsköpun og sjálfbærni. Þá marki samtakamáttur og sameiginleg gildi svæðinu sérstöðu í þeim viðfangsefnum sem framundan eru. Í tillögum ANE eru nefnd tíu skref sem Norðurlöndin geti stigið í sameiningu til að takast á við hagrænar og samfélagslegar áskorarnir vegna COVID-19.
- Sameiginleg sýn fyrir græn orkuskipti.
- Norrænt hringrásarhagkerfi.
- Kolefnisjöfnun samgangna.
- Aukin skilvirkni og hagkvæmni á raforkumarkaði.
- Minni notkun jarðefnaeldsneytis í iðnaði.
- Rannsóknir á nýrri tækni.
- Rannsóknir á sviði gervigreindar.
- Hæfniþróun og endurmenntun.
- Gagnaöryggi og persónuvernd.
- Stafrænt sjálfræði.
Í tillögum ANE er einnig bent á mikilvægi þess að Norðurlöndin í heild verði efnahagslega sjálfstætt svæði, innri markaður, með opin landamæri án viðskiptahindrana þar sem áhersla er á traust tengsl við Evrópusambandið og önnur lönd Evrópu.
Erfiðleikar á vinnumarkaði
Íslenskir verkfræðingar og tæknifræðingar hafa, eins og flestar starfsstéttir, ekki farið varhluta af erfiðleikum á vinnumarkaði vegna COVID-19. Þeir sem hafa orðið harðast úti hafa misst vinnuna, aðrir eru í skertu starfshlutfalli. Það er á ábyrgð okkar allra að koma efnahagslífinu á réttan kjöl. Tæknimenntað fólk er þar í lykilstöðu. Verkfræðingafélag Íslands er stærsta og öflugasta félaga tæknimenntaðra á Íslandi. Félagið vinnur að því að vekja athygli á mikilvægi tækniþekkingar og vill að henni sé fléttað inn í stefnumótandi ákvarðanir í íslensku samfélagi. Það á ekki síst við nú.
Undanfarnar vikur hef ég orðið þess áskynja að ráðamenn þjóðarinnar gera sér æ betur grein fyrir mikilvægi nýsköpunar og að leita þurfi nýrra leiða út úr djúpri efnahagskreppu. Þrátt fyrir allt er ástæða til bjartsýni, ekki síst varðandi atvinnumöguleika verkfræðinga og tæknifræðinga. Að jafnaði er mikil eftirspurn eftir starfskröftum þeirra í öllum geirum atvinnulífsins. Við lifum í tæknisamfélagi þar sem störf tæknimenntaðra hafa áhrif á nánast allar hliðar daglegs lífs og heimurinn reiðir sig á sköpunargáfu þessa hóps.
Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.
- Næsta færsla
- Fyrri færsla