Opinber stuðningur við nýsköpun - umsögn VFÍ

Ekki verið tekið tillit til umsagna við vinnslu frumvarpsins.

15. des. 2020

Atvinnuveganefnd Alþingis óskaði eftir umsögn VFÍ um frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun. Félagið hafi áður skilað umsögn í Samráðsgátt stjórnvalda þegar frumvarpið var í vinnslu.

Verkfræðingafélag Íslands telur að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til umsagna sem bárust við vinnslu frumvarpsins, sem fór nær óbreytt í þinglega meðferð.

VFÍ vísar í umsögn sem skilað var í Samráðsgátt stjórnvalda 12. október. Umsögninni fylgdi afrit af bréfi formanns félagsins, Svönu Helenar Björnsdóttur til ráðherra ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunar, dags. 9. júlí 2020. 

Verkfræðingafélag Íslands hefur lýst áhyggjum af framtíð tæknirannsókna á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Í umsögninni segir: „Verði frumvarpið að veruleika án nauðsynlegra breytinga er hætt við að óbætanlegt tjón verði á umhverfi nýsköpunar sem og hagnýtra tækni- og byggingarannsókna á Íslandi.”

Stjórn Verkfræðingafélags Íslands leggur eindregið til að málinu verði frestað og frumvarpið unnið frekar. Félagið ítrekar boð um aðstoð við bæta frumvarpið þannig að það þjóni sem best hagsmunum þjóðarinnar til framtíðar. 

Umsögn VFÍ til Atvinnuveganefndar.

Verkfræðingafélag Íslands vill taka þátt í stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku. Félagið er virkur umsagnaraðili um málefni er tengjast hagsmunum félagsmanna og samfélagsins í heild.

Allar umsagnir VFÍ er hægt að nálgast hér.