• stuðlaberg

Opnað fyrir fleiri kæruleiðir

Sjónarmið VFÍ kynnt fyrir þingmönnum.

26. apr. 2018

Sveinn Ingi Ólafsson og Páll Gíslason gagnrýndu fyrirhugaðar lagabreytingar á fundi Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Fyrirliggjandi tillaga að lagabreytingu opnar fyrir fleiri kæruefni. Líkleg áhrif eru því að kærum fjölgi. Fleiri kærur þýða enn lengri afgreiðslutíma hjá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem ræður alls ekki við verkefni sín í dag. 

Heildarendurskoðun á lögum um umhverfismat áætlana og framkvæmda er nauðsynleg áður en farið er í að fjölga kæruleiðum enn meir en þegar er fyrir hendi.Þetta var meginefni í gagnrýni Páls Gíslasonar, formanns VFÍ, og Sveins Inga Ólafsson, framkvæmdastjóra VERKÍS sem komu fyrir Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis föstudaginn 20. apríl síðastiðinn. Til stendur að breyta ýmsum lögum vegna rökstudds álits Eftirlitssstofnunar EFTA (ESA) sem tengist innleiðingu tilskipunar 2011/92 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Í því tilfelli sem til umræðu var að þessu sinni er ætlunin að unnt verði að kæra athafnaleysi Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar. Í stað þess að fylgja tilskipuninni sem gerir ráð fyrir að það sé athafnaleysi í ákvarðanatöku sem sé kæranlegt, velur umhverfisráðherra að gera kæranleg til úrskurðarnefndar tólf tilvik um formgalla, en í engu þeirra tilvika felst ákvörðun af hálfu stjórnvalds heldur brestur á kynningu eða formgalli. 

Samtök atvinnulífsins hafa bent á að hægt sé að fara mun einfaldari leið í lagasetningu til þess að ná fram raunverulegum tilgangi umræddrar tilskipunnar. Umræður á fundinum voru að mati fulltrúa VFÍ málefnalegar og virtust þingmenn áhugasamir um málefnið. Meðal annars var af þeirra hálfu rætt um hugsanlega skaðsemi og samfélagskostnað vegna innleiðingarinnar. Um leið var lögð áhersla á að Ísland væri á athugasemdalista ESA vegna málsins og ekki væri hægt að bíða með lagabreytingar.Á fundinum héldu Páll og Sveinn Ingi fram því sjónarmiði að nauðsynlegt væri að endurskoða í heild lögin um umhverfismat áætlana og framkvæmda. Skoða þyrfti ákvarðanir á frumstigi sem stjórnvaldsákvarðanir og búa þannig um hnúta að þeir einir geti kært á síðari stigum sem væru með athugasemdir eða kærur í upphafi ferilsins. Þá þyrfti að vera til viðaminna mat fyrir umfangsminni framkvæmdir þar sem eitt staðlað ferli eins og nú er raunin, óháð stærð eða eðli verkefna, sé mjög íþyngjandi fyrir smærri verkefni.