Orðanefndir í 100 ár

Hátíðafundur verður í Norræna húsinu 30. október.

17. okt. 2019

Á hátíðafundi miðvikudaginn 30. október verður þess minnst að 100 ár eru liðin frá stofnun fyrstu orðanefndar Verkfræðingafélags Íslands. Fundurinn er haldinn í samvinnu við Árnastofnun og verður í Norræna húsinu miðvikudaginn 30. október kl. 15:30 - 17:00.

Dagskrá

Setning – Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.
Orðanefndir verkfræðinga, sögulegt yfirlit. - Þorsteinn Þorsteinsson, aðjúnkt við Háskóla Íslands.
Frá nýyrðum til íðorða. - Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur hjá Árnastofnun.
Nýr íðorðabanki formlega tekinn í notkun. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrv. forseti.
Ráðstefnuslit - Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar.

Léttar veitingar í boði Verkfræðingafélags Íslands.

Allir velkomnir.

Um einstakt starf orðanefnda VFÍ

Meginmarkmið í íslenskri málstefnu, sem samþykkt var á Alþingi fyrir tíu árum, er að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.

Segja má að orðanefndir Verkfræðingafélags Íslands hafi sannarlega lagt sitt af mörkum til að íslenskur orðaforði stuðli að því að ræða megi og rita um sérhæfð verkfræðileg efni á íslensku.

Nú í október 2019 eru 100 ár frá stofnun Orðanefndar Verkfræðingafélags Íslands og er það jafnframt elsta orðanefndin hér á landi. Nefndin starfaði af miklum eldmóði á árunum 1919 til 1926 og lét sig ýmis svið mannlífsins varða en starfið lá niðri frá 1933 þar til Orðanefnd rafmagnsverkfræðingadeildar Verkfræðingafélags Íslands (orðanefnd RVFÍ) var stofnuð árið 1941. Hún er elsta starfandi orðanefnd landsins og hefur hún starfað óslitið í 78 ár. Flestir nefndarmenn hafa starfað mjög lengi í þeirri orðanefnd, jafnvel í nokkra áratugi. Innan vébanda Verkfræðingafélagsins starfar einnig Orðanefnd byggingarverkfræðinga en hún var stofnuð 1980. Störf orðanefndanna hafa einkennst af fádæma dugnaði. Í þeim hafa setið hugsjónamenn sem hafa starfað án þóknunar og sýnt með starfi sínu og eljusemi hvern hug þeir bera til íslensks máls og að þeir vilja auðga tunguna með íslenskum orðum.

Fjölmargar aðrar orðanefndir hafa starfað hér á landi og hefur starfsemi þeirra verið með ýmsu móti. Orðanefnd RVFÍ og orðanefnd byggingarverkfræðinga eru dæmi um orðanefndir sem hafa starfað lengi en sumar hafa einungis verið virkar á meðan þær hafa unnið að útgáfu ákveðins orðasafns.

Að miklu leyti beinist starfsemi orðanefnda að því að safna saman og mynda ný orð og koma þeim á framfæri.

Miklu máli skiptir að góð íslensk orð sem lúta að fræðigreinum berist sem fyrst út í samfélagið og allir sem á þurfa að halda geti leitað orðin uppi og haft aðgang að þeim í tiltækum orðaskrám.

Á hátíðafundi VFÍ og Árnastofnunar verður opnaður nýr íðorðabanki hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og tekur hann við af þeim orðabanka sem kenndur er við Íslenska málstöð. Þar eru birt um 60 sérhæfð orðasöfn og eru flest þeirra tekin saman af orðanefndum.

Óskandi er að orðanefndir eigi eftir að starfa um ókomna framtíð, skipaðar einstaklingum, sem hafa áhuga á og metnað til að efla íslenska tungu og íslenskan sérfræðiorðaforða og að hinn nýi íðorðabanki eigi eftir að eflast og dafna.

Samantekt: Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur hjá Árnastofnun.