Össur hlaut Teninginn
Össur er nýr handhafi Teningsins.
Össur hlaut Teninginn, viðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd, þegar hann var afhentur á Degi verkfræðinnar sem var á Hilton Reykjavík Nordica 17. nóvember. Össur hlaut Teninginn fyrir hönnun og þróun á AeroFit, byltingarkenndri lausn á sviði stoðtækja.
Með þessari nýsköpun kynnir Össur til leiks stoðtæki sem leyfir gegnumflæði lofts og raka. Með klínískum prófunum hefur verið sýnt fram á að AeroFit kerfið dregur úr rakasöfnun sem er eitt stærsta vandamál stoðtækjanotenda í dag. AeroFit samanstendur af harðri trefjahulsu og mjúkri sílikonhulsu sem festir gervifótinn við einstaklinginn. Mjúka sílikonhulsan er framleidd með þrívíddarprentun.
Dagur verkfræðinnar var sem fyrr mjög vel sóttur. Á myndinni er lengst til vinstri, Svana Helen Björnsdóttir formaður VFÍ ásamt verkefnateymi Össurar sem á heiðurinn af AeroFit kerfinu.
Teningurinn - verkfræðilegur verðlaunagripur
Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á vel útfærðum og áhugaverðum verkefnum sem tæknifræðingar og verkfræðingar vinna að. Hver dómnefndarmaður gaf einkunn fyrir hvert viðmið, sem eru alls sex talsins, og það verkefni sem hlaut hæstu meðaltals einkunn hreppti verðlaunin.
Fyrri handhafar Teningsins
CRI 2021.
Controlant 2020.
Carbfix 2019.
Verkfræðilegur verðlaunagripur
Verðlaunagripurinn, sem var frumsýndur á Degi verkfræðinnar, hefur vakið verðskuldaða athygli. Hönnuðir eru Narfi Þorsteinsson og Adrian Rodriques.