Rýni 2019 - Wroclaw í Póllandi

Skráning í 20. Rýnisferðina hefst 7. mars.

15. feb. 2019

RÝNISFERÐIR fyrir tæknifræðinga og verkfræðinga sem hófust 1998 á vegum TFÍ hafa frá upphafi notið mikilla vinsælda og nú er stefnt á 20. ferðina sem farin verður á vegum VFÍ. Að þessu sinni er ferðinni heitið til borgarinnar Wroclaw í Póllandi dagana 30. ágúst - 4. september. 2019. Skrifstofa borgarstjóra í Wroclaw aðstoðar við skipulagningu ferðar, en Wroclaw hefur verið vinabær Reykjavíkurborgar frá árinu 2017. 

Ferðatilhögun
Flogið í beinu flugi með Airbus 320 flugvél Wizz Air frá Keflavík til Wroclaw kl. 18:35 föstudaginn 29. ágúst. Flugtími er tæpar fjórar klukkustundir. Farið með rútu á hótel, 30 mínútna akstur frá flugvelli.

Gist verður á fjögurra stjörnu hóteli - NovotelCentrum - sem staðsett er 1,3 km frá Gamla bænum.

Flogið heim frá Wroclaw miðvikudaginn 4. september kl. 15:50 og lent í Keflavík kl. 17:50. Lagt af stað frá hóteli kl. 13:30.


Wroclaw er mikil menningarborg og er fjórða stærsta borg Póllands með um 640 þúsund íbúa. Borgin er staðsett í suðvestur hluta landsins og er vinsæll ferðamannastaður. Wroclaw var kosin menningarborg Evrópu 2016 og borgin var einnig valin sem besti áfangastaður Evrópu 2018. 

Gamli bærinn er augnayndi með fagran arkitektúr frá ýmsum tímum, þar er mikið af söfnum og afþreyingu og menningarviðburðir í borginni hafa ætíð verið fjölbreyttir.

Wroclaw stendur við ána Odra með sínar tólf eyjur, 130 brýr og fögru, vel varðveittu garða sem gera umhverfið sérstaklega aðlaðandi. Borgin er miðstöð verslunar, mennta og iðnaðar í þessum hluta landsins. Hvergi í Evrópu eru fleiri verslunarfermetrar á hvern íbúa en í Wroclaw.

Dagskrá (Er í vinnslu)

Dagskrá: (Er í vinnslu, nánari upplýsingar verða sendar út síðar til skráðra þátttakenda).

Laugardagur 30. ágúst – sunnudagur 1. september:

Skoðunarferðir um Wroclaw, 3 - 4 klst. hvor ferð.

Farið verður í skoðunarferðir með rútum auk þess sem gengið verður um torg og sögufrægar götur, þar sem áhersla verður lögð á byggingarlist, fallegar brýr yfir ána Odra og merkilega sögu Wroclaw. Borgin hefur á ýmsum tímum í sögunni tilheyrt Póllandi, Bóhemíu, Ungverjalandi, Austurríki, Prússlandi og Þýskalandi. Gamli bærinn er mjög fallegur, en þar munum við skoða m.a.: Aðaltorg borgarinnar með ráðhúsi frá 14. öld; Ostrow Tumski, sem er elsti hluti borgarinnar, en þéttbýli myndaðist þar fyrst á 10. öld og Nikulás Kópernikus dvaldi þar um tíma; Dómkirkjuna í Wroclaw, fallega kirkju þar sem turnarnir tveir á kirkjunni bjóða upp á einstakt útsýni yfir borgina. Við skoðum einnig: Raclawice Panorama, stórkostlegt málverk sem er 114 metra langt og 15 metra hátt og sýnir ljóslifandi bardaga pólverja við rússa um sjálfstæði árið 1794; Aula Leopoldina og Oratorium Marianum glæsilega aðalsali háskólans og Mathematical Tower sem býður upp á fallegt útsýni yfir gamla bæinn,  Park Szczytnicki, sem er fallegur borgargarður nálægt miðborginni og ef tími gefst Afrykarium í Wroclaw ZOO, þar sem hægt er að skoða fjölbreytt dýralíf.

Í lok ferðar á sunnudegi eða laugardegi verður farið í 1,5 klukkustundar siglingu um ána Odra.

Kvöldverður

Sunnudagskvöldið 1. september verður sameiginlegur kvöldverður fyrir alla á góðum veitingastað. Innifalinn í verði ferðarinnar.

2. september – mánudagur - „Fræðingar":
Lagt af stað frá hóteli með rútu kl. 9:30. Heimsóknir í fyrirtæki, stofnanir, tækniháskóla, vegagerð o.fl. Mikil uppbygging er í Wroclaw, framkvæmdir á byggingarsvæðum (þétting byggðar) verða skoðaðar. Við munum heimsækja Centenntial Hall eina stærstu steinsteyptu hvelfingu heims sem reist var árið 1913 og er á skrá UNESCO. Sýningarsalurinn er með einstakan í byggingarstíl og slapp vel við skemmdir í báðum heimsstyrjöldum. Hádegisverður innifalinn. Komið til baka á hótelið um kl. 16:00.

2. september – mánudagur - Makar:
Frjáls dagur. Tilvalið að fara í göngur eða skoðunarferðir um borgina, heimsækja söfn, borgargarðana eða kíkja í nýjasta verslunamiðstöð í borginni Galeria Wroclavia, sem 10 mín. ganga frá hótelinu. Þá getur einnig verið gaman að heimsækja matvörumarkað í gamla bænum Hala Targowa eða njóta sólarinnar á aðaltorgi eða á árbökkum Odra, ef veður leyfir.

3. september – þriðjudagur - Allir:
Lagt af stað frá hóteli með rútu kl. 9:30. Ekið í suðurátt til borgarinnar Swidnica (einnar klst. akstur) til að skoða undraverk í byggingarlist og eina merkilegustu og stærstu timburkirkju í Evrópu Kosciol Pokoju (1657)og er á skrá UNESCO. Keyrt áfram til borgarinnar Walbrzych (20 mín. akstur) til að skoða einn stærsta kastala Póllands Zamek Ksiaz. Undir lok seinni heimsstyrjaldar undirbjuggu nasistar þar felustað Hitlers og neðanjarðar mannvirki sem er hluti að fyrirhugaðri neðanjarðarborg nasista í Sudety fjöllum Project Riese. Hádegisverður kl. 13:30-14:30 á veitingastað. Innifalið í verði. Komið til baka á hótelið um kl. 16:00-16:30. 

Kostnaður og skráning

Kostnaður við ferðina er áætlaður um 155 – 160 þús. kr. í tveggja manna herbergi og um 190 þús. kr. í eins manns herbergi miðað við gengi í febrúar 2019. Innifalið: flug, hótelgisting með morgunmat, rúta til og frá flugvelli, sameiginlegur kvöldverður, sigling um ána Odra, 2-3 hádegisverðir, allar skoðunarferðir o.fl.

Skráningar
Tekið verður við skráningum frá og með fimmtudeginum 7. mars kl. 9:00 á netfangið: skrifstofa@verktaekni.is. Gert er ráð fyrir að hámarki 70 manns í ferðina.

Við röðun skráningar gildir fyrstur skráir, fyrstur fær. Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram við skráningu: Nafn – kennitala – netfang – símanúmer.

Skráningar sem berast fyrir þennan tíma verða ekki teknar gildar. 

20. mars verður send út beiðni um greiðslu staðfestingargjalds sem er kr. 30.000 á farþega sem greiða skal innan sjö daga.

Greiða skal inn á reikning 0334-26-000187 kt. 680269-6299 (Verkfræðingafélag Íslands)

Kvittun sendist á netfangið: gurry@verktaekni.is

Staðfestingargjald er ekki endurgreitt nema takist að selja sæti þeirra sem kynnu að hafa forfallast. Eins og áður er ferðin opin öllum félagsmönnum VFÍ ásamt mökum. Gert er ráð fyrir að kynningarfundur fyrir þátttakendur verði um miðjan ágúst. 

Skjal með upplýsingum um ferðina.