Mikill áhugi á Rýnisferð til Lissabon.
Rýnisferð til Lissabon 30. apríl - 5. maí 2020.
Mikill áhugi reyndist vera á Rýnisferðinni til Lissabon þegar skráning hófst kl. 9 þriðjudaginn 10. desember. Gert var ráð fyrir 80 þátttakendum í ferðina en 114 skráðu sig á fyrstu mínútunum. Ferðanefndin vinnur nú að því að fá fleiri sæti, það skýrist ekki fyrr en í næstu viku, rétt fyrir jól.
RÝNISFERÐIR fyrir tæknifræðinga og verkfræðinga sem hófust árið 1998 á vegum Tæknifræðingafélags Íslands hafa frá upphafi notið mikilla vinsælda. Nú er stefnt á 21. ferðina og að þessu sinni er ferðinni heitið til Lissabon í Portúgal dagana 30. apríl - 5. maí 2020. Ferðin er opin öllum félagsmönnum VFÍ ásamt maka eða öðrum ferðafélaga.
Ferðatilhögun:
Flogið í beinu flugi með Icelandair frá Keflavík til Lissabon fimmtudaginn 30. apríl kl. 8:30. Lending kl 13:20. Flugtími er tæpar fjórar klukkustundir. Heimferð þriðjudaginn 5. maí. Beint flug með Icelandair kl 13:50 – lent í Keflavík kl 16:50. Auk almennra skoðunarferða um Lissabon og nágrenni verður farið í heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir á svæðinu. Dagskráin er unnin í samstarfi við portúgalska verkfræðinga- og tæknifræðingafélagið og verður kynnt nánar síðar. Minnum á að sunnudaginn 3. maí á knattspyrnuliðið Benfica heimaleik í Lissabon.
Gisting:
Gist verður hótel PESTANA CR7 sem er gott fjögurra stjörnu hótel sem rekið er í samstarfi við knattspyrnumanninn Cristiano Ronaldo. Hótelið er vel staðsett í gamla miðbæ Lissabon.
Kostnaður:
Kostnaður við ferðina er áætlaður um190 þús. kr. í tveggja manna herbergi og um 245 - 255 þús. kr. í eins manns herbergi miðað við gengi í nóvember 2019.
Innifalið: Flug, hótelgisting með morgunmat, rúta til og frá flugvelli, sameiginlegur kvöldverður, 1- 2 hádegisverðir, allar skoðunarferðir o.fl.
Vakin er athygli á því að þeir félagsmenn VFÍ sem eru sjóðfélagar í starfsmenntunarsjóðum félagsins geta sótt um styrk til ferðarinnar.
Skráningar
Uppselt er í ferðina. Tekið var við skráningum frá og með þriðjudeginum 10. desember kl. 9:00. Skráningar fyrir þann tíma voru ekki teknar gildar. Gert var ráð fyrir að hámarki 80 manns í ferðina, unnið er að því að fá fleiri sæti.
Við röðun skráningar gildir fyrstur kemur, fyrstur fær.
18. desember verður send út beiðni um greiðslu staðfestingargjalds kr. 40 þúsund á farþega. Greiða skal fyrir 15. janúar 2020.
Staðfestingargjald er ekki endurgreitt nema takist að fylla sæti þeirra sem kynnu að forfallast.
Fararstjórn: Jóhannes Benediktsson, Hreinn Ólafsson, Eva Yngvadóttir.
Yfirlit yfir allar Rýnisferðirnar.
- Næsta færsla
- Fyrri færsla