Siðferði og gervigreind - norrænt samstarf

Samstarf ANE og norrænu ráðherranefndarinnar.

6. sep. 2019

ANE (Association of Nordic Engineers) eru samtök norrænna félaga verkfræðinga og tæknifræðinga sem VFÍ er aðili að. ANE ásamt Norrænu ráðherranefndinni stóðu nýverið fyrir málþingi í Kaupmannahöfn um siðferði og gervigreind og hvernig Norðurlöndin geta unnið saman á því sviði. Málþingið var hluti af dagskrá svokallaðs  Techfestival sem haldið var í Kaupmannahöfn 5. - 7. september. Rúnar Unnþórsson, prófessor við Háskóla Íslands tók þátt í málþinginu fyrir hönd VFÍ. Hann tók einnig þátt í fundi ANE og nefndarinnar um samvinnu við mótun framtíðarstefnu um siðferði og gervigreind. 

Gögn eru hráefnið við notkun gervigreindar. Stöðugt umfangsmeiri gagnasöfnun og -vinnsla vekur mikilvægar spurningar bæði innan landa og í alþjóðlegu samhengi. Orðspor Norðurlandanna hvað snertir samfélagsleg og stjórnmálaleg gildi og ekki síst mikil tæknivæðing gerir þátt þeirra í umræðu um áhrif gervigreindar mikilvægan. Á málþingi ANE og norrænu ráðherranefndarinnar var rætt hvernig Norðurlöndin geti haft áhrif og gert sig gildandi í alþjóðlegri umræðu.

Lykilspurningar

Á málþinginu var leitast við að svara nokkrum lykilspurningum.
Hvernig þróun við og nýtum gervigreind innan Norðurlandanna til að auka samkeppnisforskot þessa heimshluta?
Geta samfélagsleg gildi eins og traust, gegnsæi, ábyrgð og friðhelgi einkalífs mótað og skilgreint siðferðilega notkun gervigreindar?
Hvernig getum við tryggt að verkfræðingar og tæknifræðingar axli ábyrgð á nýrri tækni sem þeir móta og þróa?
Getum við sameinað traust og notkun gagna?

Markmiðið er að auka umræðu meðal almennings og greina hver eigi að vera áhersluatriðin varðandi gervigreind og siðferði. - Og gera tillögu að framtíðarstefnu út frá norrænu sjónarhorni.

Grein í tímariti Techfestival um málþingið.

ANE á Twitter.

Norræna ráðherranefndin.

 Ljósmyndir: Málþing ANE og Norrænu ráðherranefndarinnar.