Sigló Hótel hlaut Íslensku hljóðvistarverðlaunin
Framúrskarandi hljóðvist í móttöku og á veitingastað.
Íslensku hljóðvistarverðlaunin voru veitt í fyrsta sinn fimmtudaginn 3. nóvember. Verðlaunin hlaut Sigló Hótel fyrir framúrskarandi hljóðvist í móttöku og á veitingastað. Ólafur Hjálmarsson, verkfræðingur hjá Trivium ráðgjöf tók á móti verðlaununum fyrir hönd Sigló Hótels en hann sá um hönnun hljóðvistar á hótelinu.
Íslensku hljóðvistarverðlaunin eru samstarfsverkefni Verkfræðingafélags Íslands (VFÍ) og Íslenska hljóðvistarfélagsins (Íshljóð).
Hljóðvist hefur mikil áhrif á heilsufar, afköst, líðan og almenn samskipti fólks. Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) hefur með sívaxandi þunga allar götur frá árinu 1980 bent á mikilvægi góðrar hljóðvistar fyrir heilsu okkar og líðan. Mikil vitundarvakning hefur orðið á Íslandi og í nágrannalöndum um mikilvægi hljóðvistar á undanförnum árum og áratugum.
Viljayfirlýsing til að efla samstarf
Í ávarpi sínu við veitingu Íslensku hljóðvistarverðlaunanna sagði Svana Helen Björnsdóttir, formaður VFÍ, meðal annars: „Við erum einstaklega ánægð með að nýverið samþykktu stjórnir Íshljóðs og Verkfræðingafélagsins viljayfirlýsingu um að styrkja samsamtarfið og vinna saman að því að auka skilning á mikilvægi góðrar hljóðhönnunar og hljóðvistar. Hljóðvistarverðlaunin sem verða afhent hér í dag eru dæmi um þetta." Svana Helen sagði verðlaunin þarft framtak en markmið þeirra væri aðað snúa vörn í sókn og benda á það sem er vel gert og til fyrirmyndar í stað þess að einblína á það sem miður fer. Hún sagði jafnframt: „En það er af mörgu að taka. Margir hafa áhyggjur af hljóðvistinni við margvíslegar skipulagsbreytingar eins og þéttingu byggðar í höfuðborginni. Það er því mikilvægt að auka áhuga og skilning almennings á málefninu og ekki síst yfirvalda að fara að ráðum okkar bestu sérfræðinga á þessu sviði.
Að lokum óska ég Íshljóði til hamingju með frumkvæðið sem felst í Hljóðvistarverðlaununum. Það er ánægjulegt að vinna saman að málefni sem hefur það að markmiði að auka lífsgæði á svo mörgum sviðum."
Dómnefnd Hljóðvistarverðlaunanna er skipuð einstaklingum með þekkingu og áhuga á hljóðvist. Mat dómnefndar byggði á huglægu mati á hljóðvist, hugmyndafræði og fagurfræði. Í dómnefndinni voru Magnús Skúlason arkitekt, formaður dómnefndar, Bergþóra Kristinsdóttir verkfræðingur hjá Vegagerðinni og Sigurður Einarsson sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu.
Íslenska hljóðvistarfélagið var stofnað árið 2006 og tilgangur félagsins er að tengja saman fólk sem vinnur við hljóðhönnun og hljóðvist á Íslandi. Félagið starfar sem faghópur innan Verkfræðingafélags Íslands.
Á myndinni eru frá vinstri: Finnur Kári Pind Jörgensson, formaður Íshljóðs, Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands, Ólafur Hjálmarsson, verkfræðingur hjá Trivium ráðgjöf og Magnús Skúlason arkitekt formaður dómnefndar.