Skapandi samstarf VFÍ og Vísindasmiðju HÍ

Viljum auka áhuga á vísindum, tækni og nýsköpun og efla kennara.

20. des. 2022

Verkfræðingafélag Íslands og Vísindasmiðja Háskóla Íslands hafa undanfarin ár unnið sameiginlega að því markmiði að efla áhuga ungs fólks á vísindum, tækni og nýsköpun og efla jafnframt kennara á því sviði.

Formlegt samstarf Vísindasmiðjunnar og Verkfræðingafélagsins hófst haustið 2018 og hefur meðal annars stuðlað að gerð fræðsluefnis fyrir kennara og nemendur um forritun, fræðsluverkefni fyrir grunnskóla um lausnir tengdar orkunotkun auk tilraunaverkefnis á vettvangi félagsmiðstöðva um undirstöðuatriði rafmagns. Samningurinn var nú staðfestur í fimmta sinn og gerir ráð fyrir að haldið verði áfram með verkefni fyrra árs, þ.e. að efla FLL Legókeppni grunnskólanna.

Ýtt undir hæfni í nýsköpun, forritun, hönnun og skapandi lausnir

FLL Legókeppni grunnskólanna, verkefni sem eflir og reynir á margsvíslega hæfni í nýsköpun, forritun, hönnun og skapandi lausnir. Vísindasmiðjan hefur yfirumsjón með keppninni fyrir hönd Háskóla Íslands og stefnt er á að stækka verkefnið umtalsvert til þess að gefa fleiri skólum um land allt kost á þátttöku.

IMG_0713-1-Samstarfssamningurinn gerir einnig ráð fyrir að Vísindasmiðjan taki sem fyrr þátt í árlegum Fjölskyldudegi verkfræðinnar sem haldinn er í ágúst ár hvert, en undanfarin ár hefur fjöldi fólks lagt leið sína í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og kynntist af eigin raun tækjum, tólum og tilraunum Vísindasmiðjunnar.

Hafa tekið á móti ríflega 30 þúsund gestum

Vísindasmiðja Háskóla Íslands var opnuð vorið 2012 og aðsetur hennar er í Háskólabíói. Leiðbeinendur eru kennarar og nemendur Háskóla Íslands og er hún opin grunnskólahópum þeim að kostnaðarlausu. Starfsemi smiðjunnar fer líka að miklu leyti fram í farandsmiðjum af margskonar tagi, til dæmis í Háskólalestinni, Hörpu, á bókasöfnum, í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og víðar.

Vísindasmiðjan nýtur afar mikilla vinsælda og hefur verið nær fullbókuð frá því að hún var opnuð. Áætlað er að ríflega 30 þúsund grunnskólabörn hafi nú heimsótt Vísindasmiðjuna og tekið þátt í fjölmörgum viðburðum á höfuðborgarsvæðinu og í Háskólalestinni um land allt. Opnir viðburðir Vísindasmiðjunnar um borg og bý eru fjölsóttir af gestum á öllum aldri og allir velkomnir.

Myndin er tekin þegar Svana Helen Björnsdóttir, formaður VFÍ og Jón Atli Benediksson, rektor HÍ undirrituðu samninginn. MYND/Kristinn Ingvarsson.