Starfsnámsdagurinn í HR - Ávarp formanns VFÍ

Lokahnykkurinn á starfsnámi verkfræðinema á vorönn.

23. maí 2022

Starfsnámsdagurinn í HR var haldinn í annað sinn síðastliðinn föstudag. Dagurinn er lokahnykkurinn á starfsnámi verkfræðinema sem hafa alla vorönnina unnið að verkfræðilegum og hagnýtum úrlausnarefnum innan atvinnulífsins. Svana Helen Björnsdóttir formaður VFÍ flutti ávarp og sagði meðal annars: 

„Sem formaður Verkfræðingafélags Íslands hef ég lagt áherslu á að kynna verkfræðina og mikilvægi hennar við úrlausn þeirra áskorana sem mannkynið stendur frammi fyrir. Innan raða íslenskra verkfræðinga eru einstaklingar sem eru í fremstu röð í heiminum á sínu sviði og tengsl verkfræðideilda beggja háskólanna við atvinnulífið hafa skapað mikil tækifæri og umtalsverð verðmæti.

Tæknimenntun og tækniþekking er lykillinn að þeirri nýsköpun sem nú er kallað eftir. Með nýsköpun, hugvit og tækni að leiðarljósi munum við vinna okkur út úr þeim vandamálum sem við blasa og þar gegna verkfræðingar og tæknifræðingar mikilvægu hlutverki.

Verkfræðinámið er krefjandi en felur í sér mörg tækifæri og atvinnumöguleikar eru góðir. Í verkfræðinni fær skapandi hugsun útrás í að móta samfélagið og framtíð þess. – Það mætti jafnvel fullyrða að verkfræðin og aðrar tæknigreinar séu hinar raunverulegu skapandi greinar. En þrátt fyrir það er skortur á tæknimenntuðu fólki hér á landi sem og annars staðar. Reyndar er það svo að hlutfall þeirra sem lokið hafa námi í raunvísindum, tæknigreinum, verkfræði eða stærðfræði er mjög lágt hér á landi í samanburði við nágrannalöndin. Til að rétta af þennan halla innan skólakerfisins þarf að líta til margra þátta. Til dæmis þarf að auka vægi raungreinakennslu í grunn- og framhaldsskólum – og ekki síst glæða áhuga barna og unglinga á vísindum og tækni."

Starfsnámið (internship) hefur notið vaxandi vinsælda í námskeiðinu voru næstum 50 nemendur hjá 26 fyrirtækjum af margvíslegum gerðum. Verkefnin voru fjölbreytt, allt frá þróun meðferðarúrræða fyrir einstaklinga með hreyfihömlun og ferlabestana til þróun fjártæknilausna.