Styðjum stelpur til að diffra

VFÍ styrkir verkefnið "Stelpur diffra".

6. júl. 2022

Stjórn VFÍ ákvað nýlega að styrkja verkefnið „Stelpur diffra" sem vakið hefur athygli og meðal annars hlotið tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Um er að ræða sumarbúðir sem munu fara fram dagana 8.-12. ágúst 2022 en markmiðið er að kveikja áhuga hjá fleiri stelpum á framhaldsskólaaldri á stærðfræði og vinna gegn ýmsum staðalmyndum um greinina.

Verkfræðingafélagið mun styrkja verkefnið um 300 þúsund krónur og er meðfylgjandi mynd tekin þegar Svana Helen Björnsdóttir, formaður félagsins afhenti Nönnu Kristjánsdóttur styrkinn. Nanna er BS-nemi í stærðfræði við Háskóla Íslands. Hugmyndin að stærðfræðibúðunum kviknaði fyrir tveimur árum þegar Nanna var að ljúka námi við Menntaskólann í Hamrahlíð. Hún vann lokaverkefni í MH þar sem hún skoðaði hvernig mætti setja upp slíkar námsbúðir. Með stuðningi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna þróaði hún hugmyndina í fyrrasumar og bauð þá upp á sumarbúðirnar í fyrsta sinn. Þar naut hún meðal annars leiðsagnar Önnu Helgu Jónsdóttur dósents í stærðfræði og Bjarnheiðar Kristinsdóttur, aðjunkts í stærðfræðimenntun. 

Í námskeiðinu er lögð áhersla á að kynna stærðfræðina sem skemmtilega námsgrein. Þátttakendur fara meðal annars í gegnum þær greinar stærðfræðinnar sem falla undir Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna og spreyta sig á gömlum dæmum þaðan, fá heimsóknir, kynningar og kennslu frá stærðfræðimenntuðum konum sem starfa víða í samfélaginu. Ljósi er varpað á fegurð stærðfræðinnar, fengist er bæði þrautir og verkefni sem varpa skemmtilegu og oft óvæntu ljósi á nytsemi stærðfræðinnar og tengslum hennar við til dæmis listir. 

Nánar um "Stelpur diffra" á vef Háskóla Íslands og á vefnum Stelpur diffra en þar má nú sjá merki Verkfræðingafélagsins meðal annarra styrktaraðila.