Sömu áskoranir á Norðurlöndunum

Ársfundur NORDING var haldinn nýlega.

21. ágú. 2020

Nýverið var haldinn ársfundur NORDING. Þar hittast formenn og framkvæmdastjórar allra félaga verkfræðinga og tæknifræðinga á Norðurlöndunum. Einnig hefur félagið í Eistlandi fulla aðild en hefur ekki verið virkt í starfi NORDING. Tólf félög eiga aðild að NORDING og eru félagsmenn um 600 þúsund. 

Á ársfundum NORDING bera forsvarsmenn félaganna saman bækur sínar um stöðu mála á vinnumarkaði og helstu verkefni hvers félags. Augljóst er að félögin glíma við sömu áskoranir vegna COVID-19 faraldursins. Öll hafa þau þurft að veita félagsmönnum umtalsverða aðstoð vegna breyttra aðstæðna á vinnumarkaði og stærstur hluti funda og námskeiða hefur færst yfir á Netið. Nokkur félaganna hafa gert sambærilega könnun og VFÍ gerði, sem lesa má um hér, og eru niðurstöður að langstærstum hluta sambærilegar milli landa.

Kynjahlutfall, laun og fleira

VFÍ heldur utan um alla tölfræði fyrir NORDING. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi: 

Hlutfall kvenna af virkum félagsmönnum, þ.e. yngri en 65 ára, er hæst í Svíþjóð eða 27,6%. Til samanburðar er hlutfallið á Íslandi 20,7%, sem er næst lægst. Það er aðeins í Finnlandi sem hlutfallið er lægra, 19,8%. (Er þá Eistland ekki talið með en þar er hlutfallið aðeins 12,7%).

Mánaðarlaun þeirra sem voru á almennum markaði 2019 umreiknað í evrur, eru hæst í Danmörku, þar á eftir kemur Noregur og Ísland í þriðja sæti. Athygli vekur að  laun nýútskrifaðra eru hæst á Íslandi. Hafa verður í huga að gengisþróun hefur mikil áhrif milli ára, sérstaklega hér á landi.

Meðaltalshækkun launa á árunum 2006 - 2019 var á bilinu 0,3 til 2,9%. Minnst á Íslandi en mest í Danmörku. 

Atvinnuleysi meðal félagsmanna á árinu 2019 var á bilinu 1,0 til 2,8%. Var minnst í Svíþjóð en mest á Íslandi. 

Tölfræði NORDING.