Tæknin er lykill að árangri
„Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna munu ekki nást án tæknilegrar nýsköpunar.“
Verkfræðingafélag Íslands (VFÍ) er félag verkfræðinga, tæknifræðinga og fólks með menntun á sviði raunvísinda. Félagið var stofnað árið 1912, og starfar nú bæði sem fagfélag og kjarafélag. Félagið er stærsta og öflugasta félag tæknimenntaðra á Íslandi með um 4.500 félagsmenn. Starfsemi Verkfræðingafélagsins er mikilvæg, ekki aðeins félagsmönnum, heldur einnig íslensku samfélagi sem farvegur og skynsöm rödd tækniframfara sem framtíðarlífsgæði okkar byggja á.
Vorið með birtu sinni og gróanda er tími nýsköpunar í náttúrunni. Í samfélaginu þarf að ríkja stöðugt vor, þ.e. nýsköpun þarf sífellt að vera í öndvegi. Mikilvægi hennar til að takast á við stærstu áskoranir samfélagsins verður seint ofmetið. Árangursrík nýsköpun er blanda hugvits, verkvits og siðvits.
Hin metnaðarfullu heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna munu ekki nást nema fólk sem býr yfir víðtækri tækniþekkingu leggi sitt af mörkum við þróun nýrra lausna. Þær lausnir munu stuðla að sjálfbæru lífi jarðarbúa og því að því að núlifandi kynslóðir skili jörðinni í sama - og helst betra horfi en þær tóku við henni. Hér leikur tæknin aðalhlutverkið. Árangur mun ekki nást á vettvangi stjórnmála, lagasetningar, viðskipta eða alþjóðasamskipta án tæknilegrar nýsköpunar. Verkefnin eru fjölmörg og snúast t.d. um minna hungur, bætt heilbrigði, betri menntun, sjálfbærar borgir og loftslagsmál. Tækniþróun og ný viðskiptalíkön eru lykillinn að árangri. Tæknimenntað fólk leikur hér lykilhlutverk og Verkfræðingafélag Íslands hefur þegar tekið heimsmarkmiðin til skoðunar og vill leggja sitt af mörkum.
Verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun óskaði eftir umsögnum um svokallaða landsrýniskýrslu um innleiðingu Íslands á heimsmarkmiðunum. VFÍ hefur skilað inn umsögn á samráðsgátt stjórnvalda þar sem athugasemdum er komið á framfæri og jafnframt gerð grein fyrir nokkrum áherslumálum félagsins sem tengjast heimsmarkmiðunum.
Í skýrslunni er m.a. fjallað um mikilvægi félagasamtaka og fræðasamfélags. Félagsmenn VFÍ starfa víðs vegar í atvinnulífinu og búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á fjölmörgum sviðum sem m.a. ýta undir sjálfbærni. Félagið myndar tengslanet þessara aðila sem vinna fyrir ríki, sveitarfélög og fyrirtæki og getur þannig stutt við útbreiðslu þekkingar og stuðlað að þróun nýrra lausna.
Heimsmarkmiðin eru metnaðarfull og krefjast lausna á mörgum einföldum og flóknum verkefnum sem blasa við heimsbyggðinni. Til að árangur náist þarf samstarf ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og félagasamtaka. Draga þarf að borðinu þekkingu og reynslu ólíkra aðila. Verkfræðingafélagið er tilbúið til að leggja sitt af mörkum.
Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. maí 2019.
- Næsta færsla
- Fyrri færsla