Teningurinn - afhentur á Degi verkfræðinnar

Auglýst eftir tilnefningum fyrir verkefni ársins 2020.

11. okt. 2021

Vegna Covid-19 hefur orðið að fresta afhendingu á Teningnum og verður hann afhentur í fyrsta sinn á Degi verkfræðinnar 22. október 2021.

Teningurinn er viðurkenning Verkfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd. Vegna Covid-19 var afhendingu viðurkenningar fyrir verkefni ársins 2019 frestað og er auglýst eftir tilnefningum vegna verkefna sem lokið var á árinu 2020. Í október verða því veittar viðurkenningar fyrir tvö ár, 2019 og 2020.

Um Teninginn

Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á vel útfærðum og áhugaverðum verkefnum sem verkfræðingar og tæknifræðingar vinna að.

Viðurkenningin er veitt fyrir verkefnið í heild og er það eigandi (bakhjarl) verkefnisins sem hana hlýtur. Verkefni sem eru tilnefnd geta verið af ýmsum toga, til dæmis framkvæmdaverkefni, nýsköpunarverkefni, hugbúnaðarverkefni eða umbótaverkefni.

Teningurinn verður veittur á Degi verkfræðinnar ár hvert og eru það verkefni fyrra árs sem koma til greina. Á Degi verkfræðinnar 22. október 2021 verður annars vegar veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi verkefni sem lokið var á árinu 2019 og hins vegar fyrir verkefni sem lokið var á árinu 2020.

Viðmið dómnefndar

Sex viðmið eru lögð til grundvallar í mati dómefndar:

- Stóðst verkefnið tímaáætlun?
- Stóðst verkefnið kostnaðaráætlun?
- Stóðst verkefnið kröfur til gæða?
- Voru öryggis- og heilbrigðismál og vinnuumhverfi verkefnisins til fyrirmyndar?
- Hver er samfélagslegur ávinningur verkefnisins?
- Hvert er nýsköpunargildi verkefnisins?

Dómnefnd Teningsins

Jóhannes Benediktsson, varaformaður VFÍ, formaður dómnefndar.
Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku.
Þröstur Guðmundsson, í stjórn VFÍ, verkfræðingur hjá Betri samgöngum.
Kristjana Kjartansdóttir, forstöðumaður Ferla og umbóta hjá OR.
Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV.