Teningurinn - skilafrestur til 26. febrúar

Teningurinn afhentur á Degi verkfræðinnar.

8. jan. 2021

Á Degi verkfræðinnar 19. mars næstkomandi verður Teningurinn afhentur í fyrsta sinn. Um er að ræða viðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd. Vegna Covid-19 var afhendingu viðurkenningar fyrir verkefni ársins 2019 frestað og er núna auglýst eftir tilnefningum vegna verkefna sem lokið var á árinu 2020. Að þessu sinni verða því veittar viðurkenningar fyrir tvö ár, 2019 og 2020.

Auglýst er eftir tilnefningum og er skilafrestur til 26. febrúar. Einnig er hægt að skila inn óformlegum ábendingum til dómnefndar um verkefni sem talin eru þess verð að koma til greina.

Tilnefningar og ábendingar sendist til Verkfræðingafélags Íslands á netfangið: sigrun@verktaekni.is Tengiliður við dómnefnd er Sigrún S. Hafstein sem jafnframt veitir nánari upplýsingar. Fyrirspurnir má senda á ofangreint netfang.

Um Teninginn

Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á vel útfærðum og áhugaverðum verkefnum sem verkfræðingar og tæknifræðingar vinna að.

Viðurkenningin er veitt fyrir verkefnið í heild og er það eigandi (bakhjarl) verkefnisins sem hana hlýtur. Verkefni sem eru tilnefnd geta verið af ýmsum toga, til dæmis framkvæmdaverkefni, nýsköpunarverkefni, hugbúnaðarverkefni eða umbótaverkefni.

Teningurinn verður veittur á Degi verkfræðinnar ár hvert og eru það verkefni fyrra árs sem koma til greina. Á Degi verkfræðinnar 19. mars 2021 verður annars vegar veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi verkefni sem lokið var á árinu 2019 og hins vegar fyrir verkefni sem lokið var á árinu 2020.

Viðmið dómnefndar

Sex viðmið eru lögð til grundvallar í mati dómefndar:

- Stóðst verkefnið tímaáætlun?
- Stóðst verkefnið kostnaðaráætlun?
- Stóðst verkefnið kröfur til gæða?
- Voru öryggis- og heilbrigðismál og vinnuumhverfi verkefnisins til fyrirmyndar?
- Hver er samfélagslegur ávinningur verkefnisins?
- Hvert er nýsköpunargildi verkefnisins?

Tilnefningar

Eigandi (bakhjarl) getur tilnefnt eigið verkefni einnig geta félagsmenn Verkfræðingafélags Íslands sent inn tillögur. Koma þarf fram hver eigandi/bakhjarl verkefnisins er auk helstu samstarfsaðila; hönnuðir, verkefnisstjórar og hver þáttur verkfræðinga og tæknifræðinga var í verkefninu.

Skjal með upplýsingum fyrir þá sem vilja senda inn tilefningu.

Dómnefnd Teningsins

Jóhannes Benediktsson, varaformaður VFÍ, formaður dómnefndar.
Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku.
Hera Grímsdóttir, forseti Iðn- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík.
Kristjana Kjartansdóttir, forstöðumaður Ferla og umbóta hjá OR.
Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV.