Þekkingarsamfélagið 2025 - Ný umsögn VFÍ
Stjórn VFÍ hefur skilað umsögn í Samráðsgátt stjórnvalda.
Stjórn Verkfræðingafélags Íslands hefur skilað umsögn í Samráðsgátt stjórnvalda um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025.
Í umsögn stjórnar VFÍ er athyglinni beint að þeim atriðum er varða menntun í verkfræði, tæknifræði, öðrum tæknigreinum og raunvísindum. Vakin er athygli á veikleikum í skólakerfinu og nefnt í því sambandi að hér á landi útskrifast lágt hlutfall nemenda úr vísinda- og tæknigreinum. Jafnframt er bent er á að stytting framhaldsskólans hafi haft neikvæð áhrif.
Í umsögninni segir meðal annars: „Félagið telur að nýlegar aðgerðir á borð við styttingu framhaldsskólans, aukna áherslu á opið val í námi á framhaldsskólastigi og sameiningu raungreina á grunnskólastigi séu líklegri til að lækka frekar en hækka hlutfall þeirra nemenda sem uppfylla inngangskröfur í verkfræði- og raunvísindadeildir háskólanna. Ef ekki kemur til bættur undirbúningur verður hlutfall nemenda á háskólastigi ekki aukið nema með því að lækka aðgangskröfur, sem seint verður talið líklegt til þess að auka gæði háskólanámsins."
Þingsályktunartillagan í Samráðsgáttinni.
Umsögn Verkfræðingafélags Íslands.
Verkfræðingafélag Íslands vill taka þátt í stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku. Félagið er virkur umsagnaraðili um málefni er tengjast hagsmunum félagsmanna og samfélagsins í heild.