• Bru_arkitekt_pm

Tími risaverkefna á Íslandi er runninn upp

Stöndum frammi fyrir margvíslegum áskorunum.

25. mar. 2021

Í Morgunblaðinu í dag, 23. mars, birtist grein eftir verkfræðingana Helga Þór Ingason, Þórð Víking Friðgeirsson og Svönu Helen Björnsdóttur formann VFÍ. Fyrirsögn greinarinnar er: Tími risaverkefna á Íslandi er runninn upp. Greinin er rituð í framhaldi af málstofu um risaverkefni sem MPM námið við HR, Rannsóknasetrið CORDA og Verkfræðingafélagið héldu fyrir stuttu. (Sjá hlekk á upptöku neðst).

Risaverkefni (megaprojects) kallast þau verkefni sem einkennast af mikilli upphafsfjárfestingu, háu flækjustigi í skipulagi og langvarandi áhrifum á hagkerfi, umhverfi og samfélag. Risaverkefnum fjölgar á alþjóðavísu og ná til jafnfjölbreytilegra viðfangsefna eins og geimferða - eins og Alþjóðlegu geimstöðinnar og afþreyingar - eins og Dubailands. Flest risaverkefnin víkja samt að fjárfestingum í innviðum samfélaga, svo sem samgöngum, orkukerfum og viðbrögðum vegna breyttra aðstæðna svo sem loftslagsbreytinga og tækninýjunga.

Þegar fréttir berast af ferjunni Baldri vélarvana um hávetur á miðjum Breiðafirði eða að grunnskólabörnin komast ekki inn í rafrænt prófatökukerfi eru það í raun og veru fréttir af ófullburða innviðum. Framundan eru mörg risaverkefni á sviðum samgangna, sjálfbærni, umhverfismála, orkuskipta, nýsköpunar, tæknibreytinga og svo má áfram telja. Ef þau takast vel mun þjóðin uppskera aukna skilvirkni og betra samfélag. Ef illa fer geta þessi verkefni á hinn bóginn orðið umtalsverður baggi og haft neikvæð áhrif á hagsæld og efnahaglegar framfarir til lengri tíma.

Á vegum MPM-námsins og rannsóknasetursins CORDA, bæði við Háskólann í Reykjavík, ásamt Verkfræðingafélagi Íslands var, þann 17. mars síðastliðinn, haldin mjög vel sótt málstofa sem höfundar þessa pistils telja að hafi verið mikilvægt framlag til að skilja betur þær áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir. Þarna stigu á stokk tveir heimskunnir fræðimenn, þeir Alfons van Marrevijk og Werner Rothengatter, sem varið hafa langri og farsælli starfsævi til að rannsaka eðli og umhverfi risaverkefna. Werner Rothengatter er einn af höfundum bókarinnar „Megaprojects and Risk - An Anatomy of Ambition“ sem vakti heimsathygli þegar hún kom fyrst út árið 2003.

Báðir þessir prófessorar lögðu áherslu á að hvað það miklu skiptir að undirbúa verkefnin vel. Öll stjórnsýsla þarf að vera fyrsta flokks, samskipti þurfa að byggja á trausti og hagkvæmniathuganir þurfa að miðast við að þeir sem í hlut eiga viti fyrirfram nákvæmlega eftir hverju er sóst, bæði fjárhagslega og í formi þeirra gæða sem verkefnið á að skila til samfélagsins. Fram kom að fyrirkomulag fjármögnunar er gífurlega mikilvægt og þarf að liggja fyrir áður en byrjað er á verkinu. Algengast er að stuðst sé við er svonefnt PPP (private public partnership) fyrirkomulag, þar sem fjárfestar og opinber fyrirtæki deila áhættunni og ávinningnum. Til að PPP fyrirkomulagið sé skilvirkt og hagkvæmt þarf öfluga samningastjórnun og ekki síst öfluga áhættustjórnun. Báðir bentu þeir á hvað mikilvægt er að virkja saman krafta háskólanna, atvinnulífsins og stjórnsýslunnar eins og gert hefur verið víða annars staðar með góðum árangri.

Þeir Rothengatter og Marrevijk tala inni í aðstæður á Íslandi án hliðstæðu þegar kemur að opinberum innviðafjárfestingum í næstu framtíð. Því verður að spyrja hvort íslensk stjórnsýsla sé tilbúin? Munu fjárfestar geta treyst því að undirbúningur verkefna sé með þeim hætti sem þeir Rothengatter og Marrevijk telja nauðsynlega forsendu þess að vel fari? Einn kunnast greinandi risaverkefna í heiminum er danski Oxford prófessorinn Bent Flyvbjerg. Flyvbjerg hefur bent á það sem hann kallar „risaverkefnis-mótsögnina“ (megaproject paradox). Mótsögnin felst í því að þrátt fyrir að slík verkefni lýsi stórhug og metnaði þeirra sem ýttu þeim úr vör er algengara en ekki að þau snúist upp í andhverfu sína: Kostnaður fari fram úr áætlun, hagræn áhrif séu of- eða vanmetin og áhættan reynist of mikil miðað við ávinninginn. Í stað þess að ryðja brautina fyrir efnahagslegar framfarir eins og lofað var íþyngja slík verkefni ríkissjóði og öðrum þeim sem tóku áhættuna.

Höfundar þessarar greinar telja að slíkt megi ekki gerast.

Fyrirlestrar þeirra Werner Rothengatter og Alfons van Marrevijk eru aðgengilegir á vef Verkfræðingafélags Íslands og MPM-námsins á Íslandi.

Helgi Þór Ingason,Svana Helen Björnsdóttir, Þórður Víkingur Friðgeirsson.
Höfundar eru verkfræðingar.

Upptaka frá málstofu um risaverkefni

Hlekkur á upptöku frá málstofu um risaverkefni er hér fyrir neðan. Setja verður inn lykilorð: .vtis1$Z

https://eu01web.zoom.us/rec/share/E2_E4Q0KaqGO_vyideC_S8IMtlC_YYMLLK68XXDH1PzRkpiIxfeCQAMg2bRUzq8P.Yh72Tb5KCT7ejyhS