Yfirlýsing um lagaramma ESB og gervigreind
Ekki nægilega tekið á siðferðilegum álitamálum.
ANE (Associtation of Nordic Engineers) og NPC (Nordic Privacy Center) hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um tillögu framkvæmdastjórnar ESB að lagaramma um evrópska nálgun varðandi gervigreind.
Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram tillögur að lagaramma og aðgerðir sem miða að því að gera Evrópu að alþjóðlegri fyrirmynd hvað varðar ábyrga og örugga notkun gervigreindar (AI). Um er að ræða fyrstu lagaumgjörðina um gervigreind og samhæfða áætlun aðildarríkjanna sem á að tryggja öryggi og grundvallarréttindi fólks og fyrirtækja, um leið og hún styrkir hagnýtingu gervigreindar, fjárfestingar og nýsköpun innan ESB.
Í frétt á vef ANE er fyrirhugaðri reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fagnað, hún sé bæði í senn mikilvæg og metnaðarfull. Jafnframt er vakin athygli á nokkrum efnisatriðum sem geta hugsanlega verið í mótsögn við þau markmið sem stefnt er að með reglugerðinni. Sérstaklega er bent á að í reglugerðinni sé ekki nægilega tekið á siðferðilegum álitamálum sem tengjast gervigreind.
„Það er stöðug áskorun að ná jafnvægi milli löggjafar og nýtingu nýrrar tækni þar sem hætta er á að lagalegar hindranir standi í vegi fyrir mikilvægri nýsköpun og viðskiptaþróun. Á hinn bóginn gæti markaður án löggjafar um notkun gervigreindar leitt til skerðinga á persónufrelsi og skertra réttinda launafólks, eins og nú þegar eru dæmi um."
Tenglar á upplýsingar:
Proposal for a Regulation on a European approach for Artificial Intelligence.
Ný skýrsla ANE um siðferði og gervigreind.
Gervigreindarstefna fyrir Íslands. (Frétt á vef Stjórnarráðsins).
Grein Svönu Helenar Björnsdóttur um mótun stefnu Íslands um gervigreind.
Verkfræðingafélag Íslands hefur tekið þátt í starfi ANE frá upphafi árs 2018. Samtökin eru samstarfsvettvangur félaga verkfræðinga og tæknifræðinga á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og öðru af tveimur félögum í Noregi. Hlutverk ANE er að gæta hagsmuna norrænna verkfræðinga og tæknifræðinga bæði innan Norðurlandanna og í alþjóðlegu tilliti. Í dag eru um 500 þúsund félagsmenn í aðildarfélögum ANE.
- Næsta færsla
- Fyrri færsla