Umsögn: fjármálafrumvarp og fjármálastefna

Ný umsögn stjórnar Verkfræðingafélags Íslands.

15. des. 2021

Stjórn Verkfræðingafélags Íslands skilaði umsögn frumvarp til fjárlaga 2022 (1. mál) og tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2022-2026 (2. mál).

Í umsögninni er minnt á mikilvægi þess að efla kennslu í raungreinum og tryggja hæfni kennara til þeirra starfa. Til þess þurfi bæði fjármagn og hvatningu. Er vísað til þess að meðal helstu veikleika Íslands þegar nýsköpunargeta samfélagsins er metin hefur um árabil verið lágt hlutfall útskrifaðra nemenda úr verkfræði og raunvísindum (t.d. samkvæmt WIPO Global Innovation Index fyrir árið 2021 þar sem Ísland er í 82 sæti af 132 löndum).

Stjórn VFÍ bendir á mikilvægi þess að auka gæði í byggingariðnaði. Ekki sé nóg að innleiða stafræna stjórnsýslu og einfalda umgjörð um byggingariðnað í því skyni að lækka kostnað. Í umsögninni segir: „Hins vegar er vandamál íslensks byggingariðnaðar ekki regluverk heldur slæleg vinnubrögð og fúsk. Það er því nauðsynlegt að skoða þennan málaflokk út frá því sjónarmiði að góð hönnun og vönduð vinnubrögð eru forsenda þess að raunkostnaður neytandans lækki. Í ljósi þessa er erfitt að skilja framangreindan texta úr ríkisstjórnarsáttmálanum. Nær væri að geta um mikilvægi staðla í íslenskum byggingariðnaði, hlúa að gerð þeirra og tryggja fjármagn til þess verks."

Einnig er ítrekað mikilvægi rannsókna í íslenskum byggingariðnaði og bent á mikilvægi þess að tryggja nægilegt fjármagn til nýs Tækniseturs og Asks - styrktarsjóðs fyrir rannsóknir í mannvirkjagerð. 

Verkfræðingafélag Íslands vill taka þátt í stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku. Félagið er virkur umsagnaraðili um málefni er tengjast hagsmunum félagsmanna og samfélagsins í heild.

Allar umsagnir VFÍ er hægt að nálgast hér.