Verkfræðin og sjálfbær þróun
Grein eftir Svönu Helen Björnsdóttur formann VFÍ, sem birtist í Morgunblaðinu 20. maí 2021.
Verkfræðingafélag Íslands er aðili að Evrópusamtökum félaga verkfræðinga og tæknifræðinga, FEANI (Fédération Européenne d'Associations Nationales d'Ingénieurs). Innan samtakanna eru 350 félög frá 33 löndum og félagsmenn þeirra eru rúmlega sex milljónir. Samtökin geta nýtt slagkraft sinn til að vinna að mikilvægum úrlausnarefnum sem blasa við á hverjum tíma. Í dag er meginviðfangsefnið sjálfbær þróun þar sem vísindi, tækni og verkfræði eru í lykilhlutverkum. FEANI vinnur að stefnumótun varðandi Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna þar sem horft er til þess hlutverks sem verkfræðingar og félög þeirra gegna í að ná þessum markmiðum á heimsvísu.
Verkfræði og tækni mikilvæg
Heimsmarkmið Sameinuðu
þjóðanna um sjálfbæra þróun (SDG) er flokkur 17 markmiða og 169 undirmarkmiða
sem samþykkt voru árið 2015. Þau eru leiðarvísir að sjálfbærari heimi árið 2030
og hafa öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna innleitt þau, Ísland þar með talið.
Heimsmarkmiðin eru samtvinnuð og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar
þróunar; efnahags-, félags- og umhverfislegrar. Meginþemun eru fimm; mannkynið,
jörðin, hagsæld, friður og samstarf.
Mönnum hefur sífellt orðið ljósara mikilvægi tækni og verkfræði í tengslum við Heimsmarkmiðin. Skýrasta dæmið um þetta er að árið 2019 ákvað UNESCO að 4. mars yrði alþjóðlegur Dagur verkfræði og sjálfbærrar þróunar, þ.e. World Engineering Day (WED). Með þessari ákvörðun var vakin athygli á mikilvægu framlagi verkfræðinnar og verkfræðinga til sjálfbærrar þróunar til að takast á við þær miklu áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir.
Megináhersla á fimm markmið
FEANI telur að tækni og verkfræði skipti
sköpum í eftirfarandi fjórum heimsmarkmiðum; Hreint vatn og hreinlætisaðstaða,
Sjálfbær orka, Nýsköpun og uppbygging og Sjálfbærar borgir og samfélög. – Þetta
eru risavaxin verkefni sem fela í sér mikil tækifæri.
Þróun nýrra lausna og núverandi tækni og aðferða hefur í gegnum tíðina verið kjarninn í viðfangsefnum verkfræðinga. Það verður sífellt mikilvægara að líta til þátta og sjónarmiða sem teljast ekki verkfræðileg í grunninn. Verkfræðingar verði því að víkka út hæfni sína og breyta sjónarhorninu frá tækni- og verkfræðilegri sérþekkingu í átt að heildrænni sýn á sjálfbærni.
Við stefnumótun FEANI er ekki eingöngu litið til framlags og þekkingar einstaklinganna innan verkfræðinnar, einnig er fjallað um aðildarfélög samtakanna og hvaða hlutverki þau eigi að gegna varðandi Heimsmarkmiðin. Nýliðun í tæknigreinum, ímynd verkfræðinnar, virk þátttaka í pólitískri umræðu og ákvarðanatöku eru verkefni sem blasa við félögum verkfræðinga alls staðar í heiminum.
Helstu viðfangsefni
Hjá FEANI hafa verið skilgreind
viðfangsefni sem aðildarfélögin eru hvött til að sinna af krafti. Öll eiga þau samhljóm
í verkefnum sem Verkfræðingafélag Íslands vinnur að nú þegar. – En það má
vissulega margt af þessari upptalningu læra:
- Auka sýnileika og bæta almenna þekkingu á viðfangsefnum og mikilvægi verkfræðistéttarinnar.
- Gera framlag verkfræðinga í að bæta lífskjör þjóðarinnar sýnilegt.
- Auka áhuga, sérstaklega barna og unglinga, á náttúruvísindum, tækni og verkfræði.
- Styðja við skólakerfið og kennarastéttina með það að markmiði að auka áhuga á vísindum og tækni.
- Þróa og efla samstarf við hagsmunaaðila sem vinna að sömu markmiðum og félög verkfræðinga.
- Hvetja til umræðu, jafnvel um erfið málefni, með það að markmiði að draga fram kosti og galla og stuðla þannig að upplýstri ákvarðanatöku.
- Vera vettvangur þar sem vakin er athygli á framúrskarandi verkefnum á sviði sjálfbærni.
Heimsmarkmiðin hafa verið til stöðugrar umfjöllunar hjá Verkfræðingafélagi Íslands frá því þau komu fyrst fram og félagið vill leggja sitt af mörkum til að markmiðin náist. Félagið er stærsta og öflugasta félag tæknimenntaðra á Íslandi með um 5000 félagsmenn. Starfsemi Verkfræðingafélagsins er mikilvæg, ekki aðeins félagsmönnum, heldur einnig íslensku samfélagi sem farvegur og skynsöm rödd tækniframfara sem framtíðarlífsgæði okkar byggjast á.
Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.
- Næsta færsla
- Fyrri færsla