Verkin tala - viðurkenningar VFÍ

Viðurkenningar fyrir sérlega vel unnar og áhugaverðar veggspjaldakynningar.

7. jún. 2022

Á hverju vori heldur verkfræðideild Háskólans í Reykjavík uppskeruhátíð sem nefnist Verkin tala. Þar kynna meistaranemar við deildina niðurstöður rannsókna sinna á veggspjöldum. Svana Helen Björnsdóttir formaður VFÍ flutti ávarp og afhenti viðurkenningar fyrir tvö bestu veggspjöldin.

Viðurkenningu hlutu Eyþór Gísli Óskarsson fyrir verkefnið: Furnace Offgas Waste Heat Utilization og  Sara Kristinsdóttir fyrir verkefnið: A novel reflex analysis for patellar tendon reflex and posterior root-muscle reflex in healthy and spinal cord injured individuals.

Ekki hræðast að gera mistök

Í ávarpi sínu sagði Svana Helen meðal annars: „Verkefni nemenda eru af margvíslegum toga og endurspegla hve verkfræðin kemur víða við í nútímasamfélagi. Hér sjáum við dæmi um hvernig nýsköpun hefur verið fléttuð við framhaldsnámið. Meistaranemar eru oft þátttakendur í nýsköpunarverkefnum í samstarfi við öflug fyrirtæki og leggja þannig mikilvægan skerf til vöru- og tækniþróunar á Íslandi.

Nemendur hafa lagt hart að sér og framundan er sú áskorun að fara út í atvinnulífið og finna sér sinn farveg. Ég óska þess að framtíðin færi ykkur viðfangsefni sem bæta ykkur og efla í daglegu lífi. Skilaboðin sem ég vil flytja ykkur nú eru þrjú: Farið á móti straumnum, sýnið þolinmæði og ekki hræðast að gera mistök.

Sem formaður Verkfræðingafélags Íslands hef ég lagt áherslu á að kynna verkfræðina og mikilvægi hennar við úrlausn þeirra áskorana sem mannkynið stendur frammi fyrir. Þar skiptir máli að þora að feta nýja slóð, hugsa nýjar hugsanir, brjóta venjur, og leyfa sér að gera mistök sem læra má af.“