VFÍ og Vísindasmiðja HÍ vinna saman

Fræða skólabörn um loftslagsbreytingar og sjálfbæra orku.

21. des. 2018

Verkfræðingafélags Íslands og Vísindasmiðja Háskóla Íslands hyggjast efla samstarf sitt og vinna saman að átaki í fræðslu til ungs fólks um loftlagsbreytingar og aðgerðir til að sporna gegn þeirri vá.

Vísindasmiðjan og Verkfræðingafélagið hófu formlegt samstarf í fyrra með það að markmiði að efla áhuga ungs fólks á vísindum, tækni og nýsköpun og í því augnamiði var útbúið sérstakt fræðsluefni fyrir kennara og nemendur um forritun. Samkvæmt samstarfssamningi sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Páll Gíslason, formaður Verkfræðingafélagsins, undirrituðu á aðventunni, veitir félagið Vísindasmiðjunni nú eina milljón króna til þess að vinna að nýju fræðsluverkefni fyrir skóla um loftslagsbreytingar. Verkefnið kallast „Þitt eigið orkuver“ og gengur út á að sýna nemendum hvernig umbreyta má hreyfiorku í raforku og kanna hvernig vinna má hreyfiorku úr umhverfinu á sjálfbæran hátt. Verkefnið hverfist um notkun þekkingar til að finna lausnir tengdar orkunotkun sem er veigamikill þáttur í þeim vanda sem snýr að loftslagsbreytingum.

Þitt eigið orkuver

Kjarni verkefnisins „Þitt eigið orkuver" er einfaldur rafall/rafmótor sem tengdur er við vind- eða vatnshverfil til að nýta orku úr umhverfinu. Út frá því má svo vinna hliðarverkefni tengt gerð rafalsins, hverfilsins og/eða nýtingu raforkunnar. Markmið verkefnisins er að nemendur læri að greina sjálfbæra orkugjafa, þekki hvernig raforka er búin til og hafi búið til lítið raforkuver. 

Verkefnið leggur áherslu á lausnir fremur en slæmar framtíðarhorfur og mikilvægi þess að nemendur öðlist ekki bara skilning á þeim þáttum sem orsakað hafa þau vandamál sem nú steðja að heldur einnig getu og trú á eigin getu til að leysa vandamálin.

Samstarfssamningurinn gerir einnig ráð fyrir að Vísindasmiðjan taki þátt í Fjölskyldudegi      verkfræðinnar sem haldinn er í ágúst ár hvert. Þess má geta að þegar dagurinn var haldinn í ágúst á þessu ári og í fyrra lagði fjöldi fólks leið sína í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og kynntist af eigin raun tækjum, tólum og tilraunum Vísindasmiðjunnar.

Hafa tekið á móti 24 þúsund skólabörnum

Vísindasmiðja Háskóla Íslands var opnuð vorið 2012 og aðsetur hennar er í Háskólabíói. Markmið smiðjunnar er að efla áhuga ungmenna á vísindum og fræðum með gagnvirkum og lifandi hætti og styðja þannig við kennslu á sviði náttúru- og raunvísinda. Leiðbeinendur í smiðjunni eru kennarar og nemendur Háskóla Íslands og er hún opin grunnskólahópum fjóra daga vikunnar, þeim að kostnaðarlausu. 

Vísindasmiðjan nýtur afar mikilla vinsælda og hefur verið nær fullbókuð frá því að hún var opnuð. Áætlað er að um 24 þúsund grunnskólabörn hafi nú heimsótt Vísindasmiðjuna og tekið þátt í fjölmörgum viðburðum smiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu og í Háskólalestinni. 

Á efri myndinni eru Páll Gíslason formaður Verkfræðingafélags Íslands og Jón Atli Benediktsson rektor HÍ.

Á neðri myndinni eru frá vinstri Guðmundur Jónsson framkv.stj. sameiginlegrar stjórnsýslu HÍ, Guðrún Jónsdóttir Bachmann kynningarstjóri vísindamiðlunar, Páll Gíslason formaður VFÍ, Jón Atli Benediktsson rektor HÍ og Sigrún S. Hafstein sviðsstjóri fag- og félagssviðs hjá VFÍ.

(Texti fenginn úr frétt á vef Háskóla Íslands frá 20. desember 2018).