VFÍ og Vísindasmiðjan efla saman vísindaáhuga
Samstarfssamningur VFÍ og Vísindasmiðjunnar.
Verkfræðingafélags Íslands og Vísindasmiðja Háskóla Íslands hafa tekið höndum saman um að efla áhuga ungs fólks á vísindum, tækni og nýsköpun samkvæmt samstarfssamningi sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Páll Gíslason, formaður Verkfræðingafélagsins, undirrituðu í Vísindasmiðjunni á dögunum.
Á grundvelli samningsins veitir Verkfræðingafélagið Vísindasmiðjunni 500 þúsund króna styrk til þess að vinna fræðsluefni fyrir vef Vísindasmiðjunnar. Byrjað verður á efni tengt forritun en Vísindasmiðjan hefur lagt aukna áherslu á að efla færni bæði kennara og nemenda í að nýta möguleika forritunar og tengja hana mismunandi námsgreinum.
Samstarfssamningurinn gerir einnig ráð fyrir að Vísindasmiðjan taki þátt í Fjölskyldudegi verkfræðinnar sem haldinn er í ágúst ár hvert en þess má geta að þegar dagurinn var haldinn í fyrra lagði fjöldi fólks leið sína í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og kynntist hluta af þeim tækjum, tilraunum og tólum sem finna má í Vísindasmiðjunni.
Gert er ráð fyrir að samstarfssamningur félagsins og smiðjunnar verði endurskoðaður árlega.
Vísindasmiðja Háskóla Íslands var opnuð vorið 2012 og aðsetur hennar er í Háskólabíói. Markmiðið smiðjunnar er að efla áhuga ungmenna á vísindum og fræðum með gagnvirkum og lifandi hætti og styðja þannig við kennslu á sviði náttúru- og raunvísinda. Leiðbeinendur í smiðjunni eru kennarar og nemendur Háskóla Íslands.
Smiðjan er fyrst og fremst ætluð nemendum 5.-10. bekkjar og er hún opin grunnskólahópum fjóra daga vikunnar, þeim að kostnaðarlausu. Vísindasmiðjan nýtur afar mikilla vinsælda og hefur verið nær fullbókuð frá því að hún var opnuð fyrir um sex árum. Áætlað er að ríflega 20 þúsund grunnskólabörn hafi heimsótt Vísindasmiðjuna á þessum tíma.
Myndin er frá undirritun samningsins. Páll Gíslason formaður Verkfræðingafélags Íslands og Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands undirrita samninginn við risaborðið í Vísindasmiðjunni. Hlutföllin eru eins og fjögurra ára börn sitji við borð í venjulegri stærð. Mynd/Kristinn Ingvarsson.
- Næsta færsla
- Fyrri færsla