• abstrakt net

VFÍ þátttakandi í ANE

Rödd 360 þúsund norrænna verkfræðinga og tæknifræðinga.

29. nóv. 2017

Frá 1. janúar 2018  verður Verkfræðingafélag Íslands aðili að ANE (Association of Nordic Engineers). Aðildarumsókn VFÍ var samþykkt á formannafundi ANE í Stokkhólmi í dag, 29. nóvember.

ANE er samstarfsvettvangur sem var settur á laggirnar árið 2007 af félögum verkfræðinga og tæknifræðinga í Danmörku, Svíþjóð og öðru af tveimur félögum í Noregi. Hlutverk ANE er að gæta hagsmuna norrænna verkfræðinga og tæknifræðinga bæði innan Norðurlandanna og í alþjóðlegu tilliti. Í dag eru um 360 þúsund félagsmenn í aðildarfélögum ANE.

„ANE er rétti vettvangurinn innan Norðurlandanna til að auka sýnileika og áhrif verkfræðingastéttarinnar. Þátttaka í ANE gefur okkur færi á að hafa áhrif á hinum pólitíska vettvangi hvað varðar nýsköpun og tækniþróun. Í gegnum ANE miðla félögin þekkingu sín á milli og hjálpast að við að leysa verkefni, sem til dæmis tengjast möguleikum á sviði símenntunar, segir Páll Gíslason, formaður VFÍ.

Trond Markusson formaður ANE og norska félagsins NITO segir samvinnu norrænu félaganna skipta sífellt meira máli. „Þess vegna fögnum við því að Ísland muni nú taka fullan þátt í starfi ANE. Það gerir rödd samtakanna sterkari og eflir slagkraftinn í að koma þekkingu og hagsmunum norrænna verkfræðinga og tæknifræðinga á framfæri bæði innan Norðurlandanna og utan.“

Formaður IDA, Thomas Damkjær Petersen, tekur í sama streng: „Í gegnum tíðina þá hefur samstarf norrænu félaganna reynst vel og saman hafa þau áhrif til hagsbóta fyrir félagsmenn bæði innan Norðurlandanna og í alþjóðlegu samhengi. Ég fagna því að fá VFÍ til liðs við ANE.“

Nánari upplýsingar á vef ANE.