• vidurkenning_afhent

Viðurkenning fyrir besta veggspjaldið

Lokaverkefni meistaranema við Háskólann í Reykjavík.

21. jún. 2018

Verkin tala var yfirskriftin á veggspjaldadegi í HR sem haldinn var nýverið. Meistaranemar í verkfræði við tækni- og verkfræðideild HR kynntu lokaverkefni sín á veggspjöldum í Sólinni í HR.  VFÍ veitti viðurkenningu fyrir besta veggspjaldið en við valið var bæði tekið tillit til innihalds og efnistaka í lokaverkefninu og framsetningar á veggspjaldaformi.

Þóra Björg Sigmarsdóttir hlaut verðlaun Verkfræðingafélags Íslands fyrir besta veggspjaldið í ár. Þóra Björg útskrifast í vor með MSc gráðu í heilbrigðisverkfræði og hyggst halda áfram í doktorsnámi í þeirri grein. Rannsókn hennar heitir Describing the Glucose-Lactate Consumption Rate During Expansion and Osteogenic Differentiation of Human Bone Marrow Derived MSCs.

Nemendur fjölluðu um margvísleg efni í rannsóknum sínum eins og verðbólguvörn, jarðboranir, þrívíddarlíkön af jarðhitasvæði í Mosfellsbæ, myndatökur með dróna til að greina jarðhita, flutningskerfi raforku, flokkunarkerfi fyrir uppsjávarfisk, notkun loftneta í bergmálslausu herbergi, nanóvíra í sólarhlöðum, rekstrarlíkön fyrir einstaka atvinnugreinar, fjöðrunarkerfi kappakstursbíls og margt, margt fleira.

Á myndinni eru Þóra Björg Sigmarsdóttir, Steindór Guðmundsson formaður Menntamálanefndar VFÍ, Halldór Guðfinnur Svavarsson dósent og Guðrún A. Sævarsdóttir forseti tækni- og verkfræðideildar HR.