• Viðurkenningar fyrir lokaverkefni nemendur og fulltrúar VFÍ og HR.

Viðurkenningar fyrir lokaverkefni

VFÍ veittir viðurkenningar fyrir lokaverkefni í tæknifræði.

16. maí 2017

Á Tæknidegi Háskólans í Reykjavík voru afhentar viðurkenningar VFÍ fyrir framúrskarandi lokaverkefni. Kristjana Kjartansdóttir tæknifræðingur sem á sæti í stjórn VFÍ afhenti viðurkenningarnar. Þrjú verkefni hlutu viðurkenningu að þessu sinni. Á myndinni eru Guðrún A. Sævarsdóttir deildarforseti Tækni- og verkfræðideildar HR, Davíð Freyr Jónsson, Jón Bjarni Bjarnason, Óskar Kúld Pétursson og Kristjana Kjartansdóttir tæknifræðingur og fulltrúi stjórnar VFÍ.

Davíð Freyr Jónsson, rafmagnstæknifræði.
Multi-channes microphone system for sound localization and beamforming.

Þetta verkefni lýsir hönnun á fjölrása hljóðnemakerfi fyrir rannsóknir á sviði hljóðstaðsetningar. Kerfið á að geta safnað gögnum úr 128 hljóðnemum samtímis og streymt í rauntíma yfir í tölvu. Hönnun á einingu sem breytir hliðrænu hljóði yfir í stafrænt hljóð úr 8 hljóðnemum er lýst og hvernig gögnum úr mörgum slíkum einingum er komið yfir á einn USB kapal.

Jón Bjarni Bjarnason, rafmagnstæknifræði.
Myndgreiningarkerfi til að greina afmyndaða laxa.

Í laxeldis vinnslum er laxinn stundum afmyndaður þannig að hann er hringlaga eða of grannur. Þegar afmyndaður lax er slægður í sjálfvirkri vél getur hann stoppað vélina eða vélin skemmt laxinn. Í þessu verkefni er lýst aðferð til að greina afmyndaða laxa með myndgreiningar kerfi. Aðferðin felur í sér að mæla breytur, svo sem lengd, breidd og horn á baki en einnig hátt til að skera úr um hvort fiskurinn sé afmyndaður. Við þróun á aðferðinni var notast við forritið Halcon til að búa til þá myndgreiningu sem notast er við í verkefninu.

Óskar Kúld Pétursson, vél- og orkutæknifræði.
Uppréttur, hjólnöf og bremsukerfi í nýjan Formula Student bíl HR.

Formula Student er ein stærsta hönnunarkeppni milli nemenda á háskólastigi þar sem þeir hanna og framleiða einssæta kappakstursbíl í anda Formúlu 1.  Í þessu lokaverkefni er megin áhersla lögð á hönnun íhluti á milli spyrna, þ.e uppréttur hjólnöf og bremsukerfi fyrir nýja kappakstursbílinn sem er í hönnun. Íhlutirnir þurfa að mæta þeim kröfum og álagi sem á þá er lagt í Formula Student keppni sem og uppfylla reglur SAE. Hönnunin sem leidd er út í þessu verkefni leiðir af sér léttari íhluti í fjöðrunarkerfi sem lágmarka fjaðrandi massa bílsins ásamt því að vera stillanlegri en forveri þess.