Viðurkenningar fyrir lokaverkefni

VFÍ veitti viðurkenningar fyrir lokaverkefni í tæknifræði.

24. maí 2019

Á Tæknidegi Háskólans í Reykjavík voru afhentar viðurkenningar VFÍ fyrir áhugaverð og vel unnin lokaverkefni. Jóhannes Benediktsson varaformaður VFÍ afhenti viðurkenningarnar. Þrjú verkefni hlutu viðurkenningu að þessu sinni. Á myndinni eru frá vinstri: Jóhannes Benediktsson varaformaður VFÍ, Sigurur Gunnar Sigurðsson, Auðunn Herjólfsson, Sindri Páll Sigurðsson, Hera Grímsdóttir forstöðumaður fagháskólaverkefnis og Árni B. Björnsson framkvæmdastjóri Verkfræðingafélags Íslands.

Auðunn Herjólfsson. - Vél- og orkutæknifræði. Heiti verkefnis: Hringhjól.
Í þessu verkefni er hannað, smíðað og prófað vélknúið hringhjól. Hringhjól skera sig úr með því að hafa aðeins eitt hjól sem snertir jörðu. Ökumanni og vélbúnaði er komið fyrir innan í hjólinu og heldur það jafnvægi með hverfiþunga og jafnvægi ökumanns. Hringhjólið er ætlað sem leiktæki en ekki til almennrar notkunar enda er erfitt að stýra hjólinu með góðu móti. Vélbúnaður og annar búnaður er fenginn úr gjafahjóli en annar búnaður smíðaður. Við hönnun var stuðst við Inventor til að gera þrívíddarteikningar og smíðateikningar af hjólinu og svo ANSYS við greiningar á burðarvirki hjólsins. Öryggi ökumanns var haft að leiðarljósi en notkun hjólsins krefst samt öryggisbúnaðar líkt og hjálms og mótorhjólahlífa. Öll smíði og standsetning vélbúnaðar var framkvæmd af höfundi á verkstæði Háskólans í Reykjavík..

Sindri Páll Sigurðsson. - Vél- og orkutæknifræði. Heiti verkefnis: Lítil færanleg vatnsaflsvirkjun. Hönnun á lítilli færanlegri vatnsaflsvirkjun fyrir smáa læki.
Litlar vindmyllur, rafstöðvar og sólarsellur eru algengir raforkugjafar í dag, en hvað með litla vatnsaflsvirkjun? Í þessu verkefni er fjallað um hönnun og smíði á þessari nýsköpun. Hvernig skal útfæra uppistöðulón í svona litlum skala og fallhæð. Notaður er kaplan hverfill sem smíðaður er úr skrúfu fyrir utanborðsmótor og fleiri hlutum sem auðvelt er að nálgast. Virkjunin hentar fyrir læki á bilini 200- 400L/sek og getur gefið nokkur þúsund wött, m.v. ákveðin flæði.

Sigurður Gunnar Sigurðsson. - Rafmagnstæknifræði. Heiti verkefnis: Hagræðing orkunotkunar Vinnslustöðvar Vestmannaeyja.
Markmið þessa verkefnis er að greina orkunotkun Vinnslustöðvar Vestmannaeyja með það að markmiði að lækka afltoppa í raforkunotkun þeirra og spara þannig í rekstrinum. VSV kaupir raforku sína á afltaxta og greiðir því aflgjald fyrir árið samkvæmt meðaltali fjögurra hæðstu afltoppa yfir árið. Þar af leiðandi er hagkvæmt að finna leiðir til nýtingar á þeirri orku sem keyptur hefur verið aðgangur að. Hugsanlegur kostur er að nýta „afgangsafl” til upphitunar. Þannig má hugsanlega lækka kyndikostnað á móti.