Að gefnu tilefni. - Áhrif verkbanns á VR
Vinnustöðvanir eru VFÍ óviðkomandi.
Félagar í Samtökum atvinnulífsins, SA, kjósa nú um verkbann á félagsfólk í VR. Verkbannið á að ná til alls skrifstofufólks sem aðild á að VR og fellur undir almennan kjarasamning SA og VR. Ef verkbann verður samþykkt mun það hefjast föstudaginn 22. mars á miðnætti, á sama tíma og áður boðað verkfall VR á að hefjast.
Vinnustöðvanir í kjaradeilu VR og SA eru Verkfræðingafélagi Íslands óviðkomandi. Félagsmenn í VFÍ eiga því ekki að verða fyrir beinum röskunum á störfum sínum vegna komandi verkbannsaðgerða, ef af verður, né skulu þeir sæta því að launagreiðslur falli niður vegna verkbannsaðgerða, jafnvel þótt þeir hafi persónulega samið um að einhver hluti ráðningarkjara fylgi kjarasamningum VR og SA. Félagsmenn eiga því að sinna störfum sínum áfram og njóta sömu launa eins og áður. Að því sögðu er ekki hægt að útiloka að félagsmenn verði fyrir óbeinum áhrifum vinnustöðvana, t.d. á vinnustöðum þar sem hluti starfsmanna tilheyrir VR.
Ef vinnustöðvanir leiða til rekstrarstöðvana á einstaka vinnustöðum geta atvinnurekendur ekki fellt annað starfsfólk af launaskrá nema að uppfylltum vissum skilyrðum og þá með sérstakri tilkynningu. Þeim félagsmönnum VFÍ sem berst slík tilkynning er bent á að hafa samband við skrifstofu félagsins.