Upptaka frá málþingi
Málþing á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 28. febrúar 2024.
Á málþinginu var velt upp spurningunni hvernig unnt sé að auka gæði í byggingariðnaðinum á Íslandi sem er brýnt úrlausnarefni. Tilefni málþingsins er meðal annars grein eftir Svönu Helen Björnsdóttur, formann VFÍ um nauðsyn byggingarrannsókna á Íslandi. Greinin birtist í Morgunblaðinu og á vef VFÍ og vakti athygli.Málþingið var á vegum Deildar stjórnenda og sjálfstætt starfandi í VFÍ. Páll Á. Jónsson formaður deildarinnar og varaformaður VFÍ setti málþingið, rakti tilefni þess og lýsti vilja VFÍ til að leggja sitt af mörkum í að auka gæði í byggingariðnaði, meðal annars með því að hvetja til þess að byggingarannsóknir verði efldar á ný. Að því loknu tók Helga J. Bjarnadóttir verkfræðingur á Eflu við fundarstjórn.
Stiklað á stóru í erindum fyrirlesara
Staðan fyrr og nú. Björn Marteinsson fór yfir stöðuna í byggingariðnaði fyrr og nú. Við værum mjög háð innflutningi á byggingarefnum og lausnum og í áranna rás hefðu kröfur orðið sífellt flóknari. Hann benti á þá mikilvægu staðreynd að allt fram til 1980 hefði innflutningur verði frá Norðurlöndunum þar sem veðurfarslegar aðstæður væru svipaðar og hér á landi. Sían varðandi gæði efna hefði farið fram í útflutningslandinu. Allt hafi þetta breyst með tilkomu nýrra lausna frá löndum þar sem aðstæður eru allt aðrar en hér. Þá séu byggingar orðnar söluvara þar sem ekki er heildarsýn yfir gæði. Áherslan sé nú á lausnir í stað efna og nefndi sem dæmi að klæðningakerfi séu oft óhemju flókin.
Hvert er stefnunni heitið? Var yfirskrift erindis Indriða Níelssonar byggingarverkfræðings hjá Verkís. Hann tók saman þróunina í byggiðnariðnaðinum og benti á að á öllum sviðum, hvort sem það varðar framboð af iðnaðarmönnum og verkfræðingum, byggingarannsóknir, útþenslu hins opinbera eða önnur mikilvæg atriði þá væri ófremdarástand. „Byggingarverkfræði er að detta úr tísku"sagði Indriði og benti á að af 120 nemendum sem nú stunda framhaldsnám í verkfræði við DTU í Kaupmannahöfn væru einungis þrír að læra burðarþolsfræði.
Indriði sagði það staðreynd að opinberir aðilar hefðu vaxið gríðarlega og tekið til sín reynslumikið fólk af verkfræðistofunum „sem hefur horfið í skriffinskunni." Þá nefndi hann einnig sem dæmi að verklag hjá byggingarfulltrúum væri ekki samræmt sem ylli eiflífum vandræðum. - „Einhver verður að taka stjórnina, á öllum stigum með samþætta framtíðarsýn."
Betri hönnun hækkum ránna. Var yfirskrift erindis Ágústs Pálssonar sérfræðings hjá HMS. Hann benti á að þekking á byggingareðlisfræði væri lykillinn að gæðum. Máli sínu til stuðnings sýndi hann fjölmargar myndir af byggingum, yngri og eldri, þar sem frágangi og vinnulagi er ábótavant.
Mikilvægi góðrar hljóðvistar var umfjöllunarefnið í fyrirlestri Ólafs Hjálmarssonar verkfræðings hjá Trivium ráðgjöf. - En það má kannski segja að erindið hafi ekki síst verið áhrifamikil yfirferð yfir tilraunir hans til að berjast fyrir meiri gæðum í húsbyggingum. Það kom greinilega fram að of oft er lítill skilningur á mikilvægi góðrar hönnunar og ábendingum um að gera megi hlutina betur er allt of oft illa tekið. Ólafur hefur varað mjög við þéttingu byggðar og hafa borgaryfirvöld sýnt lítinn áhuga á að hlusta á ráðgjöf sérfræðinga. Hann nefndi sem dæmi íbúðahúsnæði við stofnbrautir þar sem hávaði er langt yfir viðmiðunarmörkum. „Þétta á borgina með heilsuspillandi húsnæði," sagði Ólafur.
Ólafur sagði íslenska hljóðhönnunarstaðla ófullnægjandi og norskir eða sænskir hljóðhönnunarstaðlar sem reynt væri að nota hefðu ekki lagastoð hér. Nú sé svo komið að lögfræðingarnir hafi tekið völdin á byggingamarkaði. Ólafur vísaði til siðareglna VFÍ og hvatti verkfræðinga og tæknifræðinga til að láta í sér heyra, þeir verði að taka virkari þátt í umræðunni. - „Hér er verið að byggja ónýtt húsnæði, hvort sem litið er til loftgæða, hljóðvistar eða birtuskilyrða."
Reynslusaga íbúðarkaupanda var yfirskrift erindis Árna B. Björnssonar, framkvæmdastjóra VFÍ. Reynsla hans af kaupum á nýrri íbúð í miðbæ Reykjavíkur hefur reynst raunasaga. Í máli hans kom vel fram hversu erfitt er fyrir íbúðakaupendur að leita réttar síns vegna byggingargalla. Þá komist verktakar upp með að skila ekki teikningum og eftirliti sér stórlega ábótavant.
Eftir að hafa hlustað á erindi Þórunnar Sigurðardóttur um dönsku byggingargalla-trygginguna, vaknar spurningin afhverju slíkt fyrirkomulag hafi ekki verið tekið upp hér? Þarna er um að ræða alvöru neytendavernd íbúðarkaupenda sem byggir á skipulögðum og greinargóðum úttektum á húsnæðinu. Kostirnir eru ekki eingöngu betri staða kaupenda, heldur sagði Þórunn að upp hafi byggst mikil þekking á mismunandi lausnum, kostum þeirra og göllum, - og ekki síst að með tilkomu tryggingarinnar hafi göllum í byggingum fækkað um 90%.
Að loknum erindum voru mjög gagnlegar umræður. Af fyrirspurnum mátti ráða að margir velta fyrir sér hlutverki og sýn HMS til byggingariðnaðarins og hvaða hlutverk stofnunin ætlar sér í framtíðinni í því að tryggja gæði, efla eftirlit og neytendavernd.