Almannavarnir hlutu Teninginn
Viðurkenning fyrir varnaraðgerðir vegna eldsumbrota á Reykjanesi.
Almannavarnir hlutu Teninginn, viðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd, þegar hann var afhentur á Degi verkfræðinnar 19. apríl. Viðurkenningin er veitt fyrir varnaraðgerðir í tengslum við eldsumbrotin á Reykjanesi.
Varnaraðgerðirnar hafa vakið verðskuldaða athygli, ekki síst út frá verkfræðilegu sjónarhorni. Víðir Reynisson tók á móti Teningnum fyrir hönd Almannavarna en með þeim voru starfsmenn frá verkfræðistofunum Verkís og Eflu sem hafa verið í lykilhlutverkum.
Verkís:
Ari Guðmundsson byggingarverkfræðingur; verkefnisstjóri við hönnun varnargarðanna.
Hörn Hrafnsdóttir vatnsauðlindaverkfræðingur; hraunflæðihermanir og hönnun varnargarðanna.
Arnar Smári Þorvarðarson byggingartæknifræðingur; framkvæmdastjórnun við byggingu varnargarðanna.
Sólveig Kristín Sigurðardóttir byggingarverkfræðingur; jarðtæknileg hönnun varnargarðanna.
Emilía Sól Guðgeirsdóttir umhverfisverkfræðingur; hraunflæðihermanir og hönnun varnargarðanna.
Rakel Björt Helgadóttir byggingarverkfræðingur; framsetning hönnunargagna varnargarðanna.
Andrés Gísli Vigdísarson byggingartæknifræðingur; þrívíddarmælingar á framkvæmdasvæðinu.
Efla:
Jón Haukur Steingrímsson jarðverkfræðingur; vettvangsstjórn, hönnun varnaraðgerða og úrlausna á staðnum.
Jónas Þór Ingólfsson mannvirkjajarðfræðingur; framkvæmdastjórn við byggingu og deilihönnun.
Einar Sindri Ólafsson jarðfræðingur; framkvæmdaeftirlit og jarðfræðiráðgjöf.
Páll Bjarnason byggingaverkfræðingur, þrívíddarmælingar, gerð landlíkana.
Þröstur Thor Bragason hreyfimyndahönnuður, þrívíddarmælingar, myndræn framsetning gagna.
Reynir Sævarsson byggingaverkfræðingur; verkefnisstjórn veituframkvæmdir.
Um verkefnið
Byggðir hafa verið leiðigarðar til að stýra hraunrennsli og varnargarðar til að verja Svartsengi og háspennulínur og aðra mikilvæga lagnainnviði. Hraunvarnargarðarnir við Svartsengi og Grindavík eru einstök framkvæmd. Hönnun þeirra samnýtir þekkingu frá nokkrum fræðasviðum, aðallega jarðtækni, straumfræði, stífluhönnun og eldfjallafræði. Garðarnir eru enn í byggingu en hafa engu að síður nýst til að beina hrauni frá Grindavík í tveimur gosum, auk þess sem varnir við möstur hafa tryggt orkuafhendingu frá Svartsengi.
Náðst hefur að verja að langmestu leyti byggð og mikilvæga innviði í miklum náttúruhamförum. Afar fá dæmi eru aðgerðir sem þessar við sambærilegar aðstæður erlendis. Er talið fullvíst að nýta megi þá reynslu og þekkingu sem hér hefur orðið til víða um heim.
Í varnaraðgerðum Almannavarna í tengslum við eldsumbrotin á Reykjanesi kemur saman hugvit, einstök fagþekking, færni og samtakamáttur.
Dagur verkfræðinnar var sem fyrr mjög vel sóttur.
Teningurinn verkfræðilegur verðlaunagripur
Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á vel útfærðum og áhugaverðum verkefnum sem tæknifræðingar og verkfræðingar vinna að. Hver dómnefndarmaður gaf einkunn fyrir hvert viðmið, sem eru alls sex talsins, og það verkefni sem hlaut hæstu meðaltals einkunn hreppti verðlaunin.
Fyrri handhafar Teningsins
Össur 2022.
CRI 2021.
Controlant 2020.
Carbfix 2019.
Vegna heimsfaraldurs voru viðurkenningar fyrir 2019 og 2020 veittar sama árið.
Verðlaunagripurinn hefur vakið verðskuldaða athygli. Hönnuðir eru Narfi Þorsteinsson og Adrian Rodriques.