Helgi Gunnarsson er nýr formaður VFÍ

Nýr formaður tók við á aðalfundi félagsins 29. apríl 2025.

29. apr. 2025

Helgi Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Vegagerðarinnar, hefur verið kjörinn formaður Verkfræðingafélags Íslands. Helgi er trésmiður og tæknifræðingur að mennt frá Ingeniørhøjskolen i København og mun ljúka MBA-námi við Háskóla Íslands í júní 2025. 

Helgi býr yfir víðtækri starfsreynslu bæði hérlendis og erlendis. Hann starfaði í Danmörku meðal annars sem verkefnastjóri hjá Edlund A/S og hefur gegnt stjórnunarhlutverkum á sviði upplýsingatækni og reksturs. Á síðari árum hefur hann einbeitt sér að stjórnun fjármála- og rekstrarmála í opinberum stofnunum og leitt umbótaverkefni á sviði fjárlagagerðar, rekstrar, stafrænnar þróunar og stjórnsýslu, meðal annars hjá fjármálaráðuneytinu, KPMG og Vegagerðinni.

Helgi er kvæntur Lísabetu Ósk Jónsdóttur, leikskólakennara og saman eiga þau fjögur börn.

Vill styrkja faglega stöðu og áhrif

Sem formaður VFÍ mun Helgi leggja áherslu á að styrkja faglega stöðu og áhrif verkfræðinga og tæknifræðinga í íslensku samfélagi. Hann vill vinna að því að efla þjónustu félagsins, móta markvissar leiðir til að styrkja félagsmenn sem leita í stjórnunarstöður og stuðla að því að verkfræðingar og tæknifræðingar verði sýnilegri og áhrifameiri þátttakendur í mótun samfélagsins. Helgi vill leggja áherslu á samstöðu og aukin tækifæri til faglegrar og persónulegrar þróunar.

Mynd: Svana Helen Björnsdóttir fráfarandi formaður og Helgi Gunnarsson nýr formaður Verkfræðingafélags Íslands.

Upplýsingar frá aðalfundi VFÍ, ársskýrsla og ársreikningar.