Kvennaverkfall 2025
Konur leggja niður störf 24. október.
Þann 24. október 1975 lögðu um 90% íslenskra kvenna niður störf til að undirstrika mikilvægi vinnuframlags þeirra og mótmæla kynbundinni mismunun. Aðgerðin vakti heimsathygli og varð táknræn fyrir baráttu kvenna fyrir jafnrétti. Kvennafrídagurinn hefur verið haldinn reglulega síðan og fimmtíu árum síðar, árið 2025, er enn á ný hvatt til þátttöku á baráttudegi fyrir jafnrétti. - Að konur og kvár leggi niður launuð sem ólaunuð störf allan daginn.
Upplýsingar um kvennaverkfall 2025.
Verkfall eða frídagur?
Kvennaverkfallið 2025 er hvorki verkfall í skilningi vinnulöggjafarinnar né frídagur launafólks. Kvennaverkfallið er baráttudagur fyrir jafnrétti á vinnumarkaði og tekur launafólk þátt á eigin forsendum og samkvæmt eigin ákvörðun.
Eðlilegast er að launþegi ræði við sinn næsta yfirmann og fái heimild hjá honum til að leggja niður störf til að taka þátt í baráttu fyrir jafnrétti. Atvinnurekanda ber ekki skylda til að greiða þeim laun sem leggja niður störf þennan dag.
Atvinnurekendur eru hvattir til að styðja við þátttöku starfsfólks, meðal annars með sveigjanleika og skýrum stuðningi.
