Niðurstöður kjarakönnunar 2022

Rafrænt viðmót auðveldar greiningu og samanburð.

30. maí 2022

Niðurstöður kjarakönnunar Kjaradeildar VFÍ liggja fyrir. Spurt var um laun í febrúar 2022. Með því að skoða laun eftir starfsaldri, lífaldri, fagsviði og starfssviði má nálgast þau markaðslaun sem við eiga fyrir hvern einstakling. Rafrænt viðmót auðveldar félagsmönnum að greina stöðu sína og gera samanburð á mismunandi hópum.

Kjarakönnun Kjaradeildar VFÍ 2022 - Verkfræðingar.

Kjarakönnun Kjaradeildar VFÍ 2022 - Tæknifræðingar.

Leiðréttur kynbundinn launamunur - marktækur munur á heildarlaunum

Sérstök greining var gerð á leiðréttum kynbundnum launamun meðal verkfræðinga eins og sjá má á bls. 32 í könnuninni. Þegar búið er að stýra fyrir áhrifum aldurs, starfsaldurs, menntunar, stjórnunarstöðu, starfsvettvangs og starfssvæðis voru karlar að jafnaði með 1,8% hærri grunnlaun en konur, en sá munur var hins vegar ekki tölfræðilega marktækur. Þessar niðurstöður gefa til kynna að karlar séu með á bilinu 1,0% lægri laun en konur upp að 4,7% hærri laun, að teknu tilliti til fyrrgreindra þátta. Því er ekki hægt að greina að um kynbundinn launamun á grunnlaunum sé að ræða meðal verkfræðinga í fullu starfi.

Ef litið er til heildarlauna (sbr. bls. 34) er niðurstaðan önnur. Að jafnaði eru heildarlaun karla um 9,5% hærri en kvenna. Þegar búið er að stýra fyrir áhrifum aldurs, starfsaldurs, menntunar, stjórnunarstöðu, fjölda unninna yfirvinnustunda í febrúar, starfsvettvangs og starfssvæðis voru karlar að jafnaði með 2,8% hærri heildarlaun en konur og er sá munur tölfræðilega marktækur. Þessar niðurstöður gefa til kynna að karlar séu á bilinu með 0,1-5,5% hærri laun en konur, að teknu tilliti til aldurs, starfsaldurs, menntunar, stöðu, fjölda yfirvinnustunda í febrúar, starfsvettvangs og starfssvæðis. Miðað við 95% vissu má því segja að það sé kynbundinn launamunur á heildarlaunum meðal verkfræðinga í fullu starfi. 

Rétt er að taka fram að þar sem hlutfallslega fáar konur eru í hópi tæknifræðinga þá var ekki unnt að gera greiningu á leiðréttum kynbundnum launamun.

Launaviðtöl

Enn og aftur kemur í ljós að launaviðtöl borga sig. Athygli vekur að 38,5% verkfræðinga og 29,4% tæknifræðinga fóru í launaviðtal á árinu 2021. Er það mun hærra hlutfall hjá verkfræðingum en fyrra ár, var 27,4%, en svipað milli ára hjá tæknifræðingum. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem fóru í viðtal fengu launahækkun í kjölfarið. (Verkfræðingar 85,1% og tæknifræðingar 71%).

Námskeið í launaviðtölum hefur verið vel sótt. Næsta námskeið verður haldið í haust. Það verður auglýst á vef VFÍ, á Facebook og með tölvupósti til félagsmanna. Einnig verður boðið upp á fleiri námskeið sem varða vinnumarkað og starfsumhverfi.

Fyrirspurnir með tölvupósti: kjaramal@verktaekni.is