Ný umsögn: Félagafrelsi á vinnumarkaði.
Stjórn Kjaradeildar VFÍ skilar umsögn um lagafrumvarp.
Stjórn Kjaradeildar Verkfræðingafélags Íslands hefur skilað umsögn um lagafrumvarp um félagafrelsi á vinnumarkaði sem nú er flutt í annað sinn á Alþingi. Félagið gagnrýnir frumvarpið harðlega og í umsögninni segir meðal annars:
„Þær breytingar, sem lagðar eru til í frumvarpinu, eru til þess fallnar að veikja stöðu einstakra launamanna og auðvelda atvinnurekendum að synja þeim um kjarasamningsbundna réttarvernd. Það má auðveldlega sjá fyrir sér þær aðstæður að vinnuveitendur leggi að launamönnum að standa utan stéttarfélaga, og fyrirgera um leið réttarvernd skv. kjarasamningum þeirra félaga.
Með fyrirhuguðum breytingum á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 er vegið að verkfallsvopni stéttarfélaga með því að mæla fyrri um að ákvarðanir um vinnustöðvanir bindi einungis félagsmenn. Slíkar breytingar yrðu ekki til að bæta réttarstöðu launamanna að íslenskum rétti.
Við yfirferð einstakra greina frumvarpsins er ljóst að þessa frumvarpssmíð þarf að vanda mun betur ef taka á hana alvarlega. Sé það í raun vilji þingsins að breyta ákvæðum gildandi laga er nauðsynlegt að fara yfir öll ákvæði þeirrar löggjafar sem nú er í gildi, átta sig á mismunandi regluverki sem gildir um launafólk og atvinnurekendur og mismunandi regluverki sem gildir um almenna markaðinn og opinbera geirann. Það sem þessu frumvarpi er ætlað að tryggja er auk þess nú þegar að verulegu leyti tryggt með lögum og í stjórnarskrá. Því ætti ekki að vera þörf á að endurtaka slík ákvæði hér með sérlögum.
Vert er að taka fram að meirihluti félagsmanna Verkfræðingafélags Íslands (VFÍ) gerir svokallaða einstaklingsbundna ráðningarsamninga. Reynslan hefur sýnt að félagsmenn VFÍ eru stundum beittir þrýstingi að standa utan stéttarfélags eða ganga til liðs við stéttarfélag sem er atvinnurekanda þóknanlegt. Einnig finnast dæmi um að félagsmenn í starfi hafi verið beittir þrýstingi til að skipta um stéttarfélag. Í slíkum tilvikum er ljós yfirburðastaða atvinnurekanda og refsiákvæði laga marklaus í því samhengi.“
Umsögn stjórnar Kjaradeildar VFÍ.
Verkfræðingafélag Íslands vill taka þátt í stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku. Félagið er virkur umsagnaraðili um málefni er tengjast hagsmunum félagsmanna og samfélagsins í heild.
Allar umsagnir VFÍ er hægt að nálgast hér.