SORPA og SSH hlutu Teninginn
Viðurkenning fyrir samræmt flokkunarkerfi úrgangs.
SORPA og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hlutu Teninginn fyrir samræmt flokkunarkerfi úrgangs.
Sorpa bs. og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hlutu Teninginn, viðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd, fyrir samræmt flokkunarkerfi úrgangs á höfuðborgarsvæðinu. Teningurinn var afhentur á Degi verkfræðinnar á Hótel Nordica í dag, föstudaginn 28. mars.
„Hlutverk Sorpu er að annast meðhöndlun úrgangs og sinna þannig lögbundinni skyldu sveitarfélaganna sem að fyrirtækinu standa. Mikilvægt umbótaverkefni var að innleiða samræmt flokkunarkerfi á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið fólst í að koma á sérsöfnun og flokkun heimila á úrgangi sem er lykilþáttur í innleiðingu hringrásarhagkerfis. Í upphafi verkefnisins voru úrgangsflokkarnir fjórir en við lok þess árið 2024 flokka heimili á höfuðborgarsvæðinu úrgang í átta flokka,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.
„Með sérsöfnun á matarleifum var stigið stórt skref í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Mælingar á magni matarleifa í blönduðum úrgangi og hreinleiki matarleifa sýna að algjör hugarfarsbreyting hefur orðið hjá íbúum. Með skýrum skilaboðum náðist að breyta viðhorfum hvað varðar hlutverk einstaklinga og heimila í því að draga úr umhverfisáhrifum úrgangs.“
Árangur verkefnisins fór fram úr bæði markmiðum og björtustu vonum hvort sem litið er til hugarfarsbreytingar, breyttrar hegðunar eða jákvæðra áhrifa á bæði heildarmagn úrgangs frá heimilum, magni flokkaðs úrgangs, endurvinnsluhlutfalls, hreinleika eða skilvirkni flokkunar.
„Innleiðing hringrásarhagkerfis er ein öflugasta aðgerð gegn loftslagsbreytingum. Það hefur mikla þýðingu í að bæta hagkerfið, leiða það í átt að sjálfbærni og betri nýtingu á auðlindum,“ segir umsögn dómnefndar.
„Góðan árangur verkefnisins má ekki síst þakka stýrihópi sem undirbjó verkefnið og var skipaður tæknimenntuðu fólki sem starfar hjá Sorpu bs og sveitarfélögunum sem að fyrirtækinu standa."
Svana Helen Björnsdóttir formaður Verkfræðingafélags Íslands afhenti Teninginn. Jón Viggó Gunnarsson framkvæmdastjóri SORPU tók við gripnum og með honum var starfsfólk fyrirtækisins og SSH sem var í lykilhlutverkum í verkefninu.
Um Teninginn
Markmið Teningsins er að vekja athygli á vel útfærðum og áhugaverðum verkefnum sem verkfræðingar og tæknifræðingar vinna að. Viðurkenningin er veitt fyrir verkefnið í heild og er það eigandi (bakhjarl) verkefnisins sem hana hlýtur. Verkefni sem eru tilnefnd geta verið af ýmsum toga, til dæmis framkvæmdaverkefni, nýsköpunarverkefni, hugbúnaðarverkefni eða umbótaverkefni. Hönnun Teningsins byggir á þrettán teningum sem allir styðja við hvern annan og snúast eftir formúlu Theódórusar, grísks stærðfræðings, eða svo kölluðum Theódórusarspíral.